- Advertisement -

Kastrín Sif vill í framboð


Kæru vinir og fjölskylda, kæru Píratar.


Ég heiti Katrín Sif Sigurgeirsdóttir og er fjörutíu og fimm ára hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Ég er gift Aðalsteini Ingólfssyni og samtals eigum við átta börn. Sem stendur starfa ég sem ljósmóðir í mæðravernd og sinni heimafæðingum og heimaþjónustu eftir fæðingu.

Ég var formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands og sat í stjórn félagsins á árunum 2017-2019. Ég leiddi á þeim tíma mjög harða kjarabaráttu þar sem ég lagði áherslu á að allt skyldi vera uppi á borðum, á gagnsætt ferli með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.

Ég var einnig í samstarfsnefnd BHM og Ljósmæðrafélags Íslands um endurnýjun stofnanasamninga á heilbrigðisstofnunum frá ársbyrjun 2017-2020.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Félagsmál hafa verið mér hugleikin og ég hef verið ötul í baráttu fyrir lögleiðingu nýrrar stjórnarskrár, er þátttakandi í Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá sem og í Stjórnarskráfélaginu.

Ég býð mig fram í Norðvesturkjördæmi vegna þess að ég tel að reynsla mín og kraftar muni nýtast því kjördæmi einna best á næsta kjörtímabili.

Ég er ættuð af Vestfjörðum og starfaði t.a.m. sem ljósmóðir á Patreksfirði og Ísafirði af og til á árunum 2014 – 2020.”

Ég veit því hversu mikilvægt það er fyrir íbúa kjördæmisins að fá öflugan talsmann fyrir traustu aðgengi að heilbrigðisþjónustu á svæðinu til liðs við sig. Traust heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni er að mínu mati meðal mikilvægustu byggðamála fyrir kjördæmið.

Ég hef komið víða að í heilbrigðiskerfinu, bæði sem þjónustuveitandi, þjónustuþegi og aðstandandi. Ég hef staðið ölduna í því kerfi í gegnum súrt og sætt, hrun og faraldur og þannig séð, heyrt og lært. Allt er þetta dýrmæt reynsla sem ég er tilbúin að nýta mér á vettvangi Alþingis til að vinna að góðu og skilvirku heilbrigðiskerfi.

Píratar á Íslandi eru ungt afl sem hefur tekið út mikinn þroska og vöxt á stuttum tíma. Þetta er afl sem er í stöðugri þróun og getur þar af leiðandi boðið upp á mikilvæga aðlögunarhæfni og lestur í nútímaþarfir samfélagsins. Píratar byggja á góðum þverskurði samfélagsins og grunnstefnan þeirra stendur vörð um réttindi allra hópa.

Áhersla Pírata á að efla og vernda réttindi jaðarsettra hópa í samfélaginu höfðar sérstaklega vel til mín því ég finn það sterkt að ég brenn fyrir samfélagi þar sem allir hafa tækifæri til að sitja við sama borð. Ég trúi því að ef grunnurinn er traustur, þ.e. ef við hlúum vel að börnunum okkar og veitum þeim öryggi og fullnægjandi vaxtar- og þroskaskilyrði, andleg, félagsleg og líkamleg, þá komum við í veg fyrir ansi víðtæka þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu þegar fram í sækir.

Ég tel að ég sé vel til þess fallin að geta verið þessum málaflokkum góður málsvari, ég hef til þess traustan grunn, reynslu, þekkingu og þroska.

Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík er óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir og hef einbeittan vilja til góðra verka. Ég finn að með Pírötum á ég samleið og sækist eftir umboði og ykkar til þess að leiða framboð Pírata í Norðvesturkjördæmi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: