Karl Gauti Hjaltason sem var rekinn úr Flokki fólksins gerir athugasemdir við stöðu formanns flokksins, Ingu Sæland, í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Hann skrifar: „Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið.“
Fyrr í greininni kemur hann við á Klaustursbarnum og orðum sínum þar um Ingu formann:
„Síðla í nóvember, eftir að ég hafði lokið þátttöku minni við aðra umræðu fjárlaga, sat ég undir orðræðu sem spannst í hópi samstarfsmanna og ratað hefur í fjölmiðla. Ég hef beðist afsökunar á þeim mistökum að sitja of lengi undir þessum umræðum.
Einhverjir hafa staldrað við ummæli mín við þetta tækifæri um hæfileika formanns Flokks fólksins til að leiða stjórnmálaflokk. Örskömmu síðar rak stjórn flokksins mig við annan mann úr flokknum. Þessa gagnrýni hafði ég, á því ári sem ég hef verið í flokknum, margítrekað látið í ljósi beint við formanninn, meðal annars á vettvangi þingflokksins og í stjórn flokksins, þar sem ég var kjörinn með flestum atkvæðum allra stjórnarmanna á landsfundi flokksins í september sl.“