Karl Ágúst Úlfsson skrifaði Bjarna, vindsængina, Samherja og Bjarna og líka um kvóta og Namibíu:
„Þetta er verðugt umhugsunarefni: Ef fjölmiðill sem flýtur um á vindsæng með sólgleraugu ljóstrar upp um glæpsamlega starfsemi íslenskra kvótakónga í öðrum heimsálfum, sem hrifsa til sín arð af náttúruauðlindum fátækrar þjóðar og troða í eigin vasa án þess að skila nokkru til samfélagsins sem þeir arðræna – og ef þessi sami fjölmiðill bendir um leið á milljarðana sem sömu kvótakóngar veita framhjá íslenska skattkerfinu svo þeir þurfi heldur ekki að missa spón úr aski sínum með því að leggja eitthvað að mörkum til samfélagsins sem upphaflega fékk þeim þær auðlindir í hendur sem varð undirstaðan að veldi þeirra – og ef svo vildi nú kannski líka til að áminnstir kvótakóngar ættu stjórnmálaflokk sem færi með fjármál samfélagsins sem við búum í – væri þá ekki fullkomlega skiljanlegt að handhafa fjármálavaldsins rynni blóðið til skyldunnar og kæmi sínum mönnum til varnar á viðeigandi hátt? Væri þá ekki býsna auðvelt að skilja að hann vildi hleypa loftinu úr vindsænginni? Eða jafnvel láta renna úr sundlauginni? Í það minnsta að gera sólgleraugun upptæk? Nei, ég segi nú svona.“