- Advertisement -

Karl Ágúst: „Játa mig endanlega sigraðan“

Karl Ágúst Úlfsson skrifar:

„Æi. Fyrirgefiði. Ég veit það vel að ég á ekki að tjá mig meira um þetta mál, enda fyrir löngu nóg komið, en – fyrirgefiði – ég vona að þetta verði í síðasta skipti. Málið er bara að mér fallast hendur. Í ríflega þrjátíu ár fékkst ég við það að gera hlægileg flest þjóðfélagsmál sem bar á góma, ýmist í fjölmiðlum eða fólks á milli. Oft var um að ræða spillingarmál, en líka bara almennar fréttir af mannlífi, menningu og tískustraumum. Af og til komu upp mál sem voru svo kjánaleg að enginn útúrsnúningur gat toppað þau. Og þá var venjulega best að láta þau eiga sig. Ef maður reyndi tók maður sénsinn á að verða ófyndnari en málið sjálft eins og það kom af skepnunni. Og það er einmitt það sem nú er að gerast: Nokkrir alþingismenn hafa tekið það að sér, ásamt lögmanni sínum, að iðka svo yfirgengileg trúðslæti á almannafæri að engin leið er að slá þeim við með útúrsnúningum eða ádeilu. Það sem endanlega setti mig út af laginu var þessi tilvitnun í fréttir:

„Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að lögmaður þingmannanna telji sig hafa óræka sönnun fyrir því að Bára hafi undirbúið aðgerð sína vel. Hún hafi virt aðstæður fyrir sér kyrfilega í bíl sínum fyrir utan Klaustur, tekið mynd af þingmönnunum þegar hún steig út úr bílnum og sest niður í sama rými og þeir og hafið upptöku jafnskjótt.

Hann sagði að aðgerðir Báru væru tæpast á færi einnar manneskju og því benti allt til þess að um „samverknað hafi verið að ræða,“ segir í bréfi lögmanns fjórmenninganna. Þær væru þess eðlis að fleiri en einn hafi þurft til þar sem fylgjast hafi þurft með ferðum manna, afla sér búnaðar, læra á hann og útfæra og æfa aðgerðir. “

Ég játa mig endanlega sigraðan.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: