Fréttir

Kári talar á mótmælum strandveiðimanna

By Miðjan

July 14, 2023

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, mun halda ræðu á mótmælum strandveiðimanna á Austurvelli á laugardaginn.

Þetta kemur fram í færslu Kjartans Páls Sveinssonar, formanns Strandveiðifélags Íslands, á Facebook.

„Ég legg til að mæta í sjóstökkum, jafnvel þótt heitt sé í veðri. Það lítur flott út fyrir sjónvarpsmyndavélarnar,“ brýnir Kjartan fyrir félögum í opnum spjallhópi á Facebook sem ber nafnið Strandveiði og ufsaveiðispjallið.

Hvatti til aðgerða á Sjómannadaginn

Ræða Kára Stefánssonar á Sjómannadaginn fyrir rúmum mánuði vakti mikið umtal.

„Það er kominn tími á sjómannabyltingu í íslensku samfélagi,“ sagði Kári meðal annars og hvatti sjómenn til aðgerða. „ Þið verðið að skipuleggja ykkur og hefja kraftmikla baráttu. Þið verðið að kasta blöðrum fullum af rauðri málingu í þær stofnanir sem standa í vegi ykkar annað hvort symbólískt eða raunverulega. Þið verðið að hefja upp raust sem glymur í öllum krókum og kimum þessa samfélags,“ sagði Kári 4. júní síðastliðinn.

Sætir fyrir fréttamenn

Einnig mun tónlistarmaðurinn og Kristján Kristjánsson, KK, koma fram á mótmælunum og flytja lög.

Í fyrrnefndri færslu á Facebook segir Kjartan Páll að mikilvægt sé að menn haldi sig við málefnið – sem sé að tryggja mannsæmandi strandveiðikerfi.

„Ég held að þetta verði ekki vettvangurinn til að persónugera vandann, þó við séum reið, frekar að koma okkar sjónarhorni á framfæri,“ skrifar Kjartan Páll og lýsir síðan fyrirhuguðum aðgerðum eftir að formlegri dagskrá lýkur.

„Að dagskrá lokinni stillum við okkur í röð fyrir framan alþingishúsið, allir í sjóstökkum, og verum sætir fyrir fréttamenn,“ segir í færslu formanns Strandveiðifélags Íslands.

Textinn er fenginn af síðu Fiskifrétta.