- Advertisement -

Kapítalistar níðast á launafólki

Sanna Magdalena vill sérstaka umræðu um stöðu erlendan bakgrunn.

„Á fyrsta borgarstjórnarfundi eftir sumarið óskaði ég eftir umræðu um stöðu þeirra með erlendan bakgrunn hér á landi. Hér er mitt innlegg í umræðuna, ræðan sem ég flutti um stöðu innflytjenda sem eru á lægstu laununum og búa við verstu heimilisaðstæðurnar,“ skrifar Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósílalistaflokksins. Hér er ræðan. (Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.

Innflytjendur, flóttafólk og hælisleitendur. Hér er um að ræða þrjá mjög ólíka hópa, sem eru ólíkir innbyrðis en við þurfum að ræða félagslega stöðu þessara einstaklinga. Við þurfum að skoða vel hvernig við erum að halda utan um þessa hópa, hver er félagsleg staða hælisleitenda, hver staða þeirra er eftir að þeir hafa fengið stöðu flóttafólks og við þurfum að vera þess fullviss um að þeir lendi ekki í biðstöðu á milli kerfa og geti tekið fullan þátt í samfélaginu. Við þurfum einnig að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu og leita allra leiða til að vinna gegn kynþáttafordómum, útlendingahatri og mismunun í garð einstaklinga með erlendan bakgrunn.

Kastað fyrir úlfana

Ljóst er að ýmislegt neikvætt sprettur fram þegar kjör og húsnæðisstaða erlends starfsfólks eru skoðuð hér á landi. Staða erlendra einstaklinga á Íslandi er oft mjög slæm. Fyrsta verkefni stjórnvalda á að vera sú að vernda fólkið. Þetta er hópur sem kastað er fyrir úlfanna. Þetta fólk er ekki varið þótt það sé að ganga í gegnum verri og óvarðari aðstæður en við höfum þekkt í áratugi. Verkalýðsforkólfar segjast stundum ekki trúa eigin augum, fólkið sé við aðstæður sem þeir töldu að væri fyrir löngu búið að útrýma.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Réttindalaust í svartri starfsemi

Erlent starfsfólk býr í húsnæði á vegum atvinnurekenda eða starfsmannaleigunnar, býr jafnvel inn á vinnustöðum og er á lágmarkslaunum og þar fyrir neðan, það eru fjölmörg dæmi um að verið sé að svindla á fólkinu, greiða dagvinnu á næturnar og alls konar, það er réttindalaust í svartri starfsemi, borgar fyrir eitt rúm í herbergi með öðrum verð sem við teljum boðlegt fyrir tveggja herbergja íbúð, er algjörlega háð fyrirtækinu í ókunnu landi, þorir ekkert að segja frá af ótta við að missa vinnuna og þar með húsnæðið og þar með möguleikann á að geta séð fyrr sér. Og hvar eru stjórnvöld? Hvergi. Þau líta ekki á þetta niðurbrot samfélagsins og kúgun á þessu fólki sem sitt mál.

Við eigum að tjóðra kapítalismann

Reykvíkingum hefði ekki fjölgað nema fyrir tilstilli erlendra sem hafa komið hingað til lands. Innflytjendur eru næstum 20% vinnuaflsins og fyrir kosninguna í Eflingu var það nánast óþekkt að innflytjendur væru í stjórn stéttafélaga. Við verðum að vakna sem samfélag. Reykjavík þarf að vakna. Fara út, opna augun og sjá og heyra hvað er verið að gera þessu fólki. Það er fyrsta verkefni Reykjavíkur að stöðva kúgunina gagnvart þessu fólki. Það gengur ekki að kapítalismanum sé sleppt lausum á stóran hóp fólks vegna þess að hann sé innflytjendur. Á því berum við öll ábyrgð. Á hverjum degi. Þegar við lesum um fólk sem leigir bedda og er látið vinna langan vinnudag fyrir lægri laun en lágmarkslaun þá eru það við sem erum að gera þessu fólki þetta. Það eru við sem eigum að tjóðra kapítalismann. Við vitum mæta vel að hann er grimm skepna. Þess vegna höfum við verndað launafólk og varið almenningi með lögum og mannréttindum. Við eigum ekki að horfa fram hjá ömurlegum aðstæðum innflytjenda vegna þess að þau eru ekki við, vegna þess að þau eru útlendingar. En þau eru við. Og ekki bara vegna þess að við erum öll fólk, jöfn og jafn helg, heldur líka vegna þess að innflytjendur eru Íslendingar og hvernig kapítalistarnir koma fram við þau og hvernig stjórnvöld bregðast þeim mótar samfélagið okkar.

Níðingsskapurinn orðinn normið

Það er ekki tilviljun að staða láglaunafólks er ömurleg og staða leigjenda er ömurleg. Það er vegna þess að við höfum látið kapítalistana komast upp með að níðast á launafólki og leigufélögin og starfsmannaleigurnar níðast á leigjendum, við gáfum eftir vegna þess að við seldum okkur að það væri verið að djöflast á útlendingum sem hefðu það kannski ekkert betra í heimalandinu. En nú eru þessi níðingsskapur orðið normið á leigumarkaði og yfirgangur fyrirtækja á starfsfólki sínu er líka orðið normið. Starfsmannaleigur ná langt inn í opinber fyrirtæki. Strætó hefur leigt fólk sem starfsmannaleigur greiða lægstu laun og starfsmannaleigurnar ná svo peningum af með því að leigja því bedda í margra manna herbergi fyrir svívirðilegt verð. Félagslegar stofnanir eins og strætó er orðinn spilltur af þessu hugarfari sem sprettur af því að við slepptum kapítalistum og okrurum á fólk, töldum að við ættum ekki að verja það vegna þess að það væri ekki við.

Það er okkur að kenna

Og við erum að missa samfélagið okkar í hendurnar á grimmri skepnu vegna þess að við vörðum ekki fólkið sem stóð verst á meðal okkar. Og það er okkur að kenna, borgarfulltrúum, sem höfum þá fyrstu skyldu að verja þau verst stöddu í borginni.
Auðvitað eru kynþáttafordómar og útlendingaandúð persónulegt vandamál margra. En við eigum núna að einbeita okkur að útlendingaandúð stofnana; hvernig kerfin okkar mismuna fólki kerfisbundið. Og þegar skoðuð er félagsleg staða innflytjenda er augljóst að kerfin okkar eru ekki bara að bregðast þessu fólki, þau vinna gegn þeim. Kerfin láta eins og þetta fólk sé ekki til, það eigi ekki skilið vernd okkar innan okkar samfélags vegna þess að aðstæður í þeirra heimalandi séu svona og svona.

Aðlagast ekki kúguninni

Við verðum að stíga upp og aðlaga stofnanir okkar að því að fimmti hver launamaður er innflytjandi og áætla má að þeir séu meira en helmingur láglaunafólksins. Við verðum að aðlaga okkur að vandamálum dagsins. Og innflytjendur eru í stórkostlegum vanda, búa við vond kjör og ömurlega kúgun. Þau hafa enga aðstöðu til að aðlagast okkur og ættu aldrei að gera það, þau ættu aldrei að aðlagast þeirri kúgun sem þau búa við. Við eigum hins vegar að aðlaga okkar kerfi að stöðunni í dag, styrkja þau svo þau geti tjóðrað kapítalistana og okurleigufélgin og varið fólkið sem þessi skepna kúgar. Það er verkefni dagsins. Hvernig ætlum við að rísa upp og sinna helstu skyldu okkar; að standa upp og verja fólkið sem verið er að kúga?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: