- Advertisement -

„Kapítalisminn er óréttlætismaskína“

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar:

Kapítalisminn er óréttlætismaskína sem færir sífellt fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið. Frá stríðslokum og inn í tímabil nýfrjálshyggjunnar var reynt að sporna við þessu með eignasköttum, sköttum á hagnað fyrirtækja, erfðafjárskatti og stighækkandi tekjusköttum, sem náðu bæði yfir launa- og og fjármagnstekjum. Þetta var gert í krafti almenns kosningaréttar, þegar samfélögin færðust nær kröfum og væntingum almennings. En hin ríku sættu sig ekki við þetta og undirbjuggu byltingu undir gunnfána nýfrjálshyggjunnar; keyptu sér stjórnmálafólk og -flokka, drógu úr völdum hins pólitíska vettvangs (þar sem hver maður hefur eitt atkvæði) og fluttu sífellt fleiri ákvarðanir út á hinn svokallaða markað (þar sem hver króna hefur eitt atkvæði), veiktu verkalýðsfélög og önnur almannasamtök og gripu til annarra aðgerða; en lögðu mesta áherslu á að losa böndin af kapítalismanum; draga úr eftirliti með honum og losa um reglur og ákvæði og brutu niður tekjujöfnun skattkerfisins; lækkuðu skatta á hinum ríku og hækkuðu skatta á þau sem áttu minna. Við þetta þandist út auður hinna ríku og áhrif þeirra með; auðvaldið varð hið drottnandi vald, allar ákvarðanir voru teknar með hagsmuni þess í huga og hægt og örugglega færðumst við inn í alræði auðvaldsins, sem hér heima og í víða í Austur-Evrópu varð að óligarkí, ástandi þar sem þjófarnir sem komust yfir almannaeigur drottnuðu yfir öllu í krafti bandalags stjórnmála og efnahagslífs; mafíustjórnmál gátu af sér mafíuhagkerfi … eða öfugt. Það er erfitt að sjá hvert gat af sér hitt. Eru Engeyingar ríkir vegna þess að þeir eru í stjórnmálum eða eru þeir ríkir vegna þess að þeir eru ekki í stjórnmálum?

Ef almenningur snýr kapítalismann ekki niður; festir hann böndum, hefur með honum eftirlit og leggur á hann skatta mun hann éta allt upp og engu eyra. Það er lögmál kapítalismans; að hann flytur látlaust fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og vilja eignast enn meira. En kannski duga böndin ekki og eftirlitið; kannski er ekkert annað að gera við þessa skepnu en að leiða hana undir fjósvegginn og skjóta hana. Valið stendur á milli þess að láta þessa skepnu þenjast út og gera líf allra óbærilegt eða að leyfa fólki að lifa í friði fyrir skepnunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: