Að venju skrifar Óli Björn Kárason í Moggann á miðvikudegi. Nú hefur hann áhyggjur af vondri stöðu eigin skoðana, og sinna flokkssystkina, meðal almennings.
„Það er sótt að hugmyndafræði frjálsra markaðsviðskipta. Sósíalistar virðast hafa fengið byr að nýju í seglin víða á Vesturlöndum sem og popúlískir einangrunar- og þjóðernissinnar sem berjast gegn frjálsum viðskiptum,“ skrifar Óli Björn.
„Við hægri menn getum haldið áfram að gagnrýni sósíalismann og draga fram jafnt sögulegar sem samtíma staðreyndir. Og um leið lagt til atlögu við öfgafulla einangrunarsinna. Slíkt er nauðsynlegt en dugar skammt. Við þurfum að vera tilbúnir til að verja markaðshagkerfið – kapítalismann sem þrátt fyrir ófullkomleika hefur tryggt aukna velmegun og frelsi til orða og æðis.“
Og þingmaðurinn heldur áfram á sömu leið:
„Til að ná árangri verðum við að vera tilbúnir til að horfast í augu við kapítalisminn er ekki fullkominn og reyna að skilja þá tortryggni sem gætir í garð markaðsbúskapar. Við getum ekki leyft okkur að skella skollaeyrum við kröfum þeirra sem lægstu launin hafa eða gert lítið úr daglegum áhyggjum þeirra sem berjast við að láta enda ná saman,“ þennan kafla greinarinnar þurfa þau í Borgartúni 35 að lesa og eins ritstjóri Moggans.
„Við sem sitjum á Alþingi,“ skrifar Óli Björn; „…og erum talsmenn frelsis og takmarkaðra ríkisafskipta, verðum að viðurkenna að á okkar vakt hefur ríkið þanist út. Ekki aðeins í fjölda starfsmanna eða í milljörðum talið, heldur ekki síður með því að mynda frjóan jarðveg fyrir frumskóg reglugerða og laga. Í stað þess að einfalda líf einstaklinga og gera það þægilegra hefur það verið flækt.
Hægt og bítandi hefur hið opinbera orðið leiðandi í launaþróun. Það er búið að hafa endaskipti á hlutunum og rjúfa tengslin milli launa og verðmætasköpunar. Fáir bera ríkari skyldur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins að tryggja jafnvægi í samfélaginu og koma í veg fyrir að ríki og ríkisstofnanir taki yfir þróun vinnumarkaðarins. Það á að vera ófrávíkjanleg regla að almenni vinnumarkaðurinn marki stefnuna. Hið opinbera getur fylgt í humátt á eftir.“
Óli Björn segir reglur ríkisins þjóna stórfyrirtækjum frekar en nokkru öðru:
„Talsmenn markaðskerfisins gleyma því oft hve nauðsynlegt það er að koma í veg fyrir að venjulegt launafólk beri byrðar vegna hugsanlegra markaðsbresta. Ef tryggja á stuðning við frjálslyndi markaðshyggjunnar verður almenningur að geta treyst því að leikreglurnar séu réttlátar – að þær taki ekki mið af þeim sem best standa eða völdin hafa.
Vandinn er að leikreglurnar – lög og reglur markaðarins eru að verða illskiljanlegur hrærigrautur sem teknókratar hræra reglulega í. Afleiðingin er minna efnahagslegt frelsi venjulegs fólks á sama tíma og hinir sterku njóta. Þvert á það sem margir halda þjóna flóknar reglur ríkisins fyrst og fremst stórfyrirtækjum og öflugum hagsmunasamtökum, en hamla sjálfstæða atvinnurekandanum og launamanninum.“