- Advertisement -

KANNSKI GREIÐIR ALCOA TEKJUSKATT Á NÆSTUNNI

Fengi ég einhverju að ráða, myndi ég krefja Alcoa um greiðslu tekjuskatts frá upphafi starfseminnar.


Árni Gunnarsson skrifar:

Frétt á forsíðu Morgunblaðsins í morgun vakti athygli mína. Í fyrirsögn segir: „Skuldléttara Alcoa. Gæti flýtt fyrir greiðslu tekjuskatts.“ Í fréttinni segir, að fjármögnun Alcoa hafi verið breytt með þeim hætti, að móðurfélagið hafi aukið eigið fé um jafnvirði 143 milljarða íslenskra króna. Sú fjárhæð hafi verið notuð til að greiða niður skuld Alcoa á Íslandi við móðurfélagið. Forstjóri félagsins, Magnús Ásmundsson segir, að þessi breyting geti leitt til þess, að Alcoa byrji fyrr en ella að greiða tekjuskatt til íslenska ríkisins.

Félagið hefur aldrei greitt hér tekjuskatt, enda bókfærð skuld við móðurfélagið notuð til að losna við skattgreiðslur. Þetta er algeng aðferð stórfyrirtækja til að losna við skatta. – Er það ekki hreint dásamlegt, að erlent félag, sem hefur komist undan skattgreiðslum hér á landi með bókhaldsbrellum, skuli einhverntíman í náinni framtíð ætla að greiða tekjuskatta. Þetta félag hefur, auk skattfríðinda, fengið rafmagn á útsöluverði. Fengi ég einhverju að ráða, myndi ég krefja Alcoa um greiðslu tekjuskatts frá upphafi starfseminnar. Það hefur verið vitað, að félagið hefur með bókhaldsbrellum, þ.e. að bóka milljarðaskuldir við móðurfélagið, gabbað íslensku þjóðina og haft af henni stórar fjárhæðir. Nú þykist forstjórinn gera vel með að tilkynna, að verið geti að félagið greiði tekjuskatta einhverntíman í framtíðinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann nefnir hins vegar engar aðgerðir til að draga úr mengun frá Alcoa-stóriðjunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: