Kannabis á Alþingi
„Fjölmargar þjóðir hafa þegar stigið þau skref sem hér er fjallað um. Nauðsynlegt er fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið og mark af þeim framförum sem hafa orðið í málaflokki þessum.“
„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp að lögum sem heimili notkun og ræktun lyfjahamps. Með því er fyrsta skrefið að setningu reglna um lyfjahamp stigið. Nauðsynlegt er að breyting sem þessi sé vel ígrunduð og er margra mismunandi lagabreytinga þörf,“ segir í greinagerð með þingsályktunartillögu þingmanna Pírata, sem er á dagskrá þingfundar í dag.
Hvað er lyfjahampur?
„Lyfjahampur er heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi. Notkun hampjurtarinnar sem lyfs á sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi. Á síðastliðnum árum og áratugum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á læknisfræðilegum áhrifum lyfjahamps og ábata fyrir sjúklinga af notkun hans. Rannsóknir þessar hafa sýnt fram á að lyfjahampur hefur raunverulegt notagildi, m.a. í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.“
Og hver er reynslan annars staðar frá?
„Við undirbúning frumvarpsins verði byggt á reynslu þeirra landa sem heimilað hafa notkun lyfjahamps og litið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegt er að huga að við setningu laga og reglna um notkun og ræktun lyfjahamps, þar á meðal innflutnings og sölu á fræjum, ræktun plantna, framleiðslu og vinnslu lyfja úr plöntunum, ávísunar og dreifingar á tilbúnum lyfjahampi og hvernig best megi tryggja einfalt, öruggt og fyrirsjáanlegt regluverk sem verði notendum lyfjahamps til góðs.“
Og hafa margar þjóðir stigið þetta skref?
„Fjölmargar þjóðir hafa þegar stigið þau skref sem hér er fjallað um. Nauðsynlegt er fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið og mark af þeim framförum sem hafa orðið í málaflokki þessum. Það getur ekki talist í takt við framfarir þær sem eiga sér nú stað í hinum vestræna heimi að árið 2018 sé enn verið að refsa sjúklingum sem kjósa sér þessa meðferðarleið.“