Kann Bjarni ekki að skammast sín?
„Ég veit, Bjarni fjármálaráðherra, að það þýðir ekki að segja þér að skammast þín því þú kannt það ekki. Svo mörg eru þau orð og virðist heldur ekki sem formaður Sjálfstæðisflokksins viti hvað stendur í stefnuskrá flokksins,“ þannig endar Hjörleifur Hallgríms, eldri borgari kröftuga grein í Mogganum í dag.
Grein Hjörleifs hefst svona:
„Fyrir stuttu talaði Guðmundur Ingi, þingmaður Flokks fólksins, úr ræðustól þingsins um bág kjör öryrkja og ellilífeyrisþega og benti t.d. á að á skömmum tíma hefðu laun alþingismanna hækkað um 250 þús. kr. eða svipaða upphæð og ellilífeyrisþegar eiga að lifa af á mánuði. Svarið sem þingmaðurinn fékk frá fjármálaráðherra var á þá leið að hvaðan ættu þeir peningar að koma til hækkunar á kjörum þessa fólks þegar ríkissjóður væri rekinn með 300 milljarða halla. Þvílíkt svar, og vil ég í því sambandi vitna í blað sem kom út fyrir rúmum tveimur árum, þar sem segir að afskriftir fjölskyldufyrirtækja sem Bjarni fjármálaráðherra tengist séu um 130 milljarðar og hefði trúlega mátt gera eitthvað við þá upphæð til hagsbóta fyrir ellilífeyrisþega ef þessi upphæð hefði skilað sér á heiðarlegan hátt. Og ósvífnin er ekki öll þegar tillit er tekið til að hækkanir ellilífeyris hafa hvorki haldið í við almenna launaþróun né hækkanir lágmarkslauna á valdatíma ríkisstjórnarinnar og bítur Bjarni fjármálaráðherra höfuðið af skömminni með grein í Morgunblaðinu í mars sl.“
„Fyrirsögn greinarinnar var „Fólkið sem ól okkur upp“. Já Bjarni, fólkið sem ól ykkur upp og lagði nótt við dag til að hjálpa til við að þetta þjóðfélag mætti vaxa og dafna og hefur vel til tekist og bað ekki um 36 stunda vinnuviku eða minna heldur var skilað helst ekki minna en 70-80 stunda vinnuviku. Enginn vældi en margir bognuðu í baki og blóð spratt fram undan nöglum og þetta er þakklætið, Bjarni fjármálaráðherra, þú kannt ekki að skammast þín. Ellilífeyrisþegar sem lakast hafa það eru með strípaðar tryggingabætur innan við 300 þús. á mán. eða u.þ.b. tíu sinnum lægri laun en þú sjálfur. Þetta fólk þarf að hafa að lágmarki án skatts 350 þús. kr. á mán. ef það á að komast sæmilega af og er þó enginn afgangur. Nú veit ég að margir ellilífeyrisþegar hafa það sæmilegt og er það vel og á ég þar við fólkið sem er með háar greiðslur úr lífeyrissjóðum þótt tryggingabætur hafi þá skerst. En með berar tryggingabætur innan við kr. 300 þús. á mán. og lítið sem ekkert úr lífeyrissjóði og e.t.v. helming í húsaleigu sér hver heilvita maður að dæmið gengur alls ekki upp og fólk lifir ekki sómasamlegu lífi, langt í frá. Þú ert það slóttugur, Bjarni, í grein þinni að minnast bara á það fólk sem hefur það sæmilegt en minnist ekki á þá sem lepja dauðann úr skel. Það er ekki mikill vandi að lagfæra kjör þessa fólks sem svo illa stendur; allt sem þarf er að fara í skattaskýrslur þar sem á að standa svart á hvítu hvernig þetta fólk hefur það og hvar úrræða er þörf en þú virðist ekki hafa áhuga á slíku.
Í innganginum að grein þinni í Morgunblaðinu segir: „Frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók að nýju sæti í ríkisstjórn árið 2013 höfum við unnið markvisst að bættum kjörum allra með því að nýta kraftmikið hagvaxtarskeið með því að standa með tekjulágum. Þetta sýnir sagan.“ Þvílík öfugmæli og þetta er sagt án kinnroða. Að lokum vil ég vitna í ágæta sjálfstæðiskonu, fv. formann Hvatar, Maríu E. Ingvadóttur, þar sem hún segir í grein: „Í stefnu Sjálfstæðisflokksins stendur að hver maður skuli geta lifað af launum sínum með sæmd.“ Enn fremur sagði hinn virti rithöfundur með meiru, Ólafur Jóhann: „Það eru forréttindi að þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum.“