Ritstjóri Moggans er sigri hrósandi í þinglok. Þingflokkurinn gekk í þeim takti sem hafði verið gefinn.
„Breytingar á stjórnarskránni er mál sem ekkert kallar á og farsælast væri að legðist í dvala í drjúgan tíma svo áhugamenn um það fengju tóm til að endurmeta afstöðu sína og gætu losnað úr þeim klóm þráhyggjunnar sem þeir hafa verið fastir í um árabil,“ segir í leiðara Moggans.
Eins og áður hefur verið sagt er eitt af markmiðum núverandi útgefenda Moggans að verjast breytingum á stjórnarskránni. Enn er sigur í höfn.
Svo er annað stórmál frá Vg sem flokknum tókst að drepa. Mogginn fagnar:
„Hálendisþjóðgarðurinn er annars eðlis. Þar er á ferðinni varasöm hugmynd sem full ástæða er til að fáist rædd nú í aðdraganda kosninga og að flokkarnir geri skýra grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Inn í það verða að fléttast umræður um rammaáætlun og það ferli allt, sem í ljós hefur komið að dugar engan veginn til að taka afstöðu til virkjanakosta eða stuðla að eðlilegum framkvæmdahraða þar sem á annað borð þykir ástæða til að ráðast í framkvæmdir,“ segir Mogginn og beitir fyrir sig klassísku bragði úr stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins.