Davíð Oddsson hefur gert kenningar Donalds Trump að sínum. Lætur sem hann trúi Bandaríkjaforseta um að Kínverjar hafi skapað kórónuveiruna á tilraunastofu og spreðað henni um heiminn svo Trump verði ekki endurkjöri forseti, eða eitthvað á þá leið.
Kínverjar verjast sem mest þeir geta. Og hafa tíma til. Sendiráð á Kína á Íslandi, eða réttara sagt starfsmenn þess, eru tíðir gestir í umræðuþáttum Moggans þar sem þeir hrekja kenningar ritstjórans úr Skerjafirði.
Í Mogga dagsins er ein grein frá kínverska sendiráðinu. Greinin hefst svona: „Hinn 8. júní var birt í Morgunblaðinu ritstjórnargrein undir nafninu „Hvers vegna þessi leynd?“ þar sem settar voru fram vangaveltur og gagnrýni varðandi það af hverju Kína væri að hindra alþjóðlegar rannsóknir á uppruna kórónuveirunnar. Mig langar fyrir hönd kínverska sendiráðsins að benda á nokkur atriði.“
Síðan er kenningar Davíðs og Donalds gagnrýndar. Hver af annarri. Lesendum Moggans er bent á að lesa greinina kínversku, sem endar svona:
„Kína hefur fært gríðarlegar fórnir en á sama tíma lagt sitt af mörkum til að berjast gegn veirunni á heimsvísu. Það ætti að virða framlag Kína og það ætti ekki að gagnrýna það og ásaka án nokkurra raka. Kína kallar eftir því að alþjóðasamfélagið standi saman og hafni fordómum og hroka og hafni öllum tilraunum til að finna sökudólga og annað sem er notað til að slá pólitískar keilur, og standi saman gegn fordómum og ásökunum í pólitískum tilgangi. Með því að gera það munum við sjá að andi einlægni, samvinnu, ábyrgðar og staðfestu mun leiða einstaklinga og þjóðir frá öllum heimshornum til sigurs gegn faraldrinum.“
Skoðanabræðurnir Davíð og Donald munu halda áfram. Svo mikið er víst.