Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata, skrifar:
Er ráðherrann að kalla mannslát fyrirsögn? Þá er vinkonu minni Svandísi farið að förlast. Ég get alveg tekið undir það að stjórnsýsla heilbrigðismála eins og stjórnsýsla almennt á ekki að stjórnast af einstökum málum -nema þegar einstök mál gefa tilefni til þess. Hið einstaka málefni bráðamóttökunnar og stöðu LSH gefur alveg tilefni til að bregðast við. Það er ekki fyrirsögn, heldur greinaraðir i Læknablaðinu og varúðarorð síðustu mánaða og jafnvel ára.
Ég vil benda ráðherranum á að vel er hægt að taka á starfskjörum heilbrigðisstétta svo hægt sé að manna helstu heilbrigðisstofnanir. Ef málið er húsnæðisekla þá eru vannýtt sjúkrahús í næsta nágrenni: Akranes, Reykjanesbær og Selfoss. Ef málið er skipulags- og kerfisvandi þá er bara að lagfæra hann. Það tekur varla mörg ár. Vandinn verður allavega ekki leystur með því að færa fleiri verkefni inn á Landsspítala svo sem frá Krabbameinsfélaginu.