„Ef Ásmundur Einar barnaverndarráðherra er alvara um að vernda börn (hann er ábyrgur fyrir barnavernd í landinu) þá sýnir hann frumkvæði.
Ég hef haft samband við formann velferðarnefndar Alþingis sem er ábyrg fyrir því að hafa eftirlit með Ásmundi ef hann vanrækir sínar skyldur.
Svo hafði ég aftur samband rétt í þessu við forseta Íslands til að fá svar fyrir því hver er á endanum ábyrgur fyrir réttindum barna (t.d. að verða ekki fyrir einelti og ofbeldi).
Ég sendi embætti forseta bréfið að neðan fyrir 12 dögum og hef ekki fengið svör. Svo ég lét
Guðna Th. Jóhannesson vita með Facebook skilaboðum í kvöld:
_________
„Kæri Guðni Thorlacius Jóhannesson forseti Íslands.
Eins og ég hef rætt við forsetaritara þinn þá sendi ég sem alþingismaður þennan póst til að óska leiðsagnar þinnar sem forseta Íslands varðandi ábyrgð mismunandi ráðherra, samkvæmt forsetaúrskurði, á að framfylgja réttindum barna samkvæmt landslögum, svo að ég geti sem alþingismaður sinnt stjórnarskrárbundinni eftirlitsskyldu minni gagnvart því að framkvæmdarvaldið framfylgi lögbundnum réttindum barna.
Þar sem ég er sem alþingismaður eiðsvarinn að halda stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Þar sem ég hef samkvæmt stjórnarskrá eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu.
Þar sem framkvæmdarvaldið ber ábyrgð á því að framfylgja lögbundnum réttindum barna.
Þar sem forsti Íslands felur með forsetaúrskurði ákveðnum ráðherrum ábyrgð á málefnum um réttindi barna eins og þau eru bundin í landslög.
Þar sem lög um samning Sameinuðuþjóðanna um réttindi barnsins skylda m.a. þingmenn og ráðherra að: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“
Þar sem ég hef sem „Talsmaður barna“ fyrir umboðsmann barna, UNICEF og Barnaheill, lofað að hafa réttindi barna eins og þau birtast í barnasáttmála SÞ að leiðarljósi í starfi mínu sem þingmaður, þ.m.t. við eftirlit með því að framkvæmdarvaldið framfylgi lögbundnum réttindum barna.
Þar sem ég sem alþingismaður hef ekki fengið skýr svör um hvaða ráðherrar ber ábyrgð á að uppfylla hvaða þætti réttinda eins árs barns sem fæddist og hefur síðan búið hér á landi en nýtur ekki sömu réttinda og önnur börn, og enn eru réttindi barnsins vanrækt af framkvæmdarvaldinu.
Þar sem ég er ófær um að sinna stjórnarskrábundinni skyldu minni vegna skorts á upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu til að ég geti sinnt eftirlitsskyldu minni sem alþingmaður með framkvæmdarvaldinu.
Óska ég sem alþingismaður leiðsagnar þinnar sem forseta Íslands varðandi ábyrgð ráðherra á að framfylgja réttindum barna samkvæmt landslögum. Hvaða þættir réttinda barna í landslögum fall undir hvaða málefnasvið og hvaða ráðherra samkvæmt úrskurði forseta Íslands?
Með þökkum og ósk um skýr og skjót svör,
Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata.“