„En þá birtist í fjölmiðlum forsætisráðherra þjóðarinnar, en samkvæmt lögum skipar sá ráðherra bankastjórann til starfa og ætti því að víkja honum úr starfi vilji hann ekki víkja sjálfur. Dómurinn hefur ekki áhrif á stöðu seðlabankastjóra segir ráðherrann!“
Þannig skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson um viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur við dómi í máli Seðlabankans gegn Samherja.
„Hér birtist okkur hin íslenska leið. Engu máli skiptir þó að opinberir starfsmenn misfari með vald sitt og valdi borgurum að ólögum bæði fjárhagslegu og persónulegu tjóni. Þeir skulu enga ábyrgð bera á athöfnum sínum. Kannski við ættum að biðja stjórnmálamenn, sem taka svona afstöðu, að hlífa okkur í framtíðinni við orðagjálfri um ábyrga og vandaða stjórnsýslu? Þeir sem þannig tala reglulega eru ekki síður en hinir botnsokknir í þá spillingu sem ríkir á Íslandi við meðferð opinbers valds,“ skrifar hann.