Fréttir

Jón Steinar: Aðför umboðsmanns að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur

By Miðjan

August 29, 2014

Samfélag „Um langan tíma hafa staðið yfir árásir á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og beinar tilraunir til að binda enda á ráðherradóm hennar í dómsmálum. Þar róa undir margir áhrifamenn í íslenska lögfræðiheiminum. Þessi hópur hefur farið mikinn að undanförnu á vettvangi fjölmiðla. Kannski verður unnt að segja söguna af tilefnum þess síðar. Það er dapurlegt að umboðsmaður Alþingis skuli vilja nota embætti sitt til að taka þátt í þessari aðför. Kannski var það kornið sem fyllti mælinn, þannig að Hanna Birna hefur nú verið flæmd úr ráðuneytinu,“ skrifar hæstaréttardómarinn fyrrverandi, Jón Steinar Gunnlaugsson, í Morgunblaðið, en í grein sinni gagnrýnir hann Tryggva Gunnarsson, umboðsmanns Alþingis, af hörku.

„Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis verður að sæta því að embætti hans verði bitbein í opinberum umræðum í landinu þegar hann ákveður að beita því með þeim hætti sem hér er raunin.“

Jón Steinar segir Tryggva ekki virða meginreglur í stjórnsýslu, „…sem honum er ætlað að fylgjast með að aðrir virði. Þar nefni ég reglu um meðalhóf og andmælarétt. Þegar hann sendi nú síðast til ráðherrans langhund sinn upp á 23 blaðsíður tilkynnti hann að hann myndi birta hann almenningi þegar í stað og neitaði ráðherranum um frestun á birtingunni þar til ráðherranum hefði gefist tóm til að svara. Svörin hefði þá mátt birta um leið og langhundinn. Sá maður sem fer fram með þessum hætti hlýtur að vera í annarlegum erindagerðum. Engir hagsmunir í stjórnsýslu mæla með þessu háttalagi. Skýring á því gæti verið sú að hann hafi þegar verið búinn að láta frá sér til fjölmiðla upplýsingar um bréfið og hafi því ekki getað orðið við ósk ráðherrans um frestun.“