Jón Gunnarsson er í viðtali í sjónvarpi Moggans. Þar skýtur stöðugt á flokk forsætisráðherra. Vinstri græn. Þetta er að finna í Mogga dagsins.
„Staðan núna er þannig að það er mjög erfitt fyrir Vinstri græna að vera í ríkisstjórn,“ segir Jón.
„Ég upplifði þetta þannig að vera dreginn á asnaeyrum í þessu máli,” segir hann þegar hann lýsir ferlinu við vinnslu á frumvarpi sínu, sem að lokum var eitt þeirra mála sem ekki voru samþykkt við nýafstaðin þinglok. Hann segir að þinglokin hafi einkennst af átökum innan ríkisstjórnarflokkanna.
Jón segir flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa gengið á bak orða sinna við þær breytingar sem hann telur að þurfi að gera á lögreglulögum, en þar er um að ræða það sem kallað er forvirkar rannsóknarheimildir.
Í viðtalinu er víst einnig rætt um ummæli Bjarna Benediktssonar, sem sagði á tröppum Bessastaða í gær að Alþingi hefði brugðist í útlendingamálum – og vísaði þar til þess að ekki hafi tekist að gera viðeigandi breytingar á lögum um útlendinga. Jón tekur undir það og segir að Íslendingar hafi misst tökin á málaflokknum.
Hann segir hversu erfitt það hefur verið að ná árangri í málaflokknum í samstarfi við VG og segir hættu á því að aðgerðarleysi geti leitt til aukinnar útlendingaandúðar.
Jón ræðir einnig um orkumál og segir í því samhengi að stjórnmálin hafi reynst samfélaginu dýr með stefnuleysi. Þá er rætt um það hvort að pólitíkin ráði við erfið verkefni, hvort að Jón hyggist sitja áfram sem þingmaður og margt fleira.