- Advertisement -

Jón Gunnarsson ósáttur við Bjarkeyju

„Hún hunsar vísindamenn Hafrannsóknastofnunar. Hún notar reiknireglu sem enginn annar notar.“

Stjórnmál Eðlilega er margt undrandi á ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra að hafa leyft hvalveiðar í sumar. Svo er líka til fólk sem nær ekki í nef sér vegna þess hversu langan tíma ráðherrann tók sér til að gefa út veiðileyfið. Í þeim hópi er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra,

„Maður er, virðulegur forseti, orðlaus yfir ósvífni ráðherrans gagnvart starfsfólki og fyrirtæki í þessu tilfelli. Það er allt gert, að því er virðist, af geðþótta og lítilli eða engri virðingu fyrir fólki, lögum eða stjórnarskrá. Slík stjórnsýsla, virðulegur forseti, er ólíðandi. Þetta er ólíðandi misbeiting á valdi sem ráðherra hefur,“ sagði Jón Gunnarsson á alþingi í dag.

„Þá er matvælaráðherra komin undan feldi, búin að tilkynna ákvörðun sína um hvalveiðar árið 2024 auðvitað allt, allt of seint. Verð að fara að lögum í landinu, er haft eftir henni í fjölmiðlum í dag. Hún hefði mátt gera sér grein fyrir því fyrr að það er nauðsynlegt. Það blasir við að málsmeðferðin er engan veginn í samræmi við lög eða stjórnarskrá landsins. Umboðsmaður Alþingis gerði skýra grein fyrir því í áliti sínu á síðasta ári um sambærilega málsmeðferð sem annar ráðherra Vinstri grænna viðhafði í sama máli. Rökin sem hæstv. ráðherra færir fyrir langdreginni málsmeðferð sinni standast enga skoðun. Hún vitnar til þess að 2019 hafi hvalveiðileyfi verið gefið út í júlí. Þá var ekkert starfsleyfi í gildi fyrir verksmiðjuna og stóð ekki til að fara á veiðar, þannig að þetta er auðvitað bara sögufölsun. Og baráttan við MAST um starfsleyfi fyrir verksmiðjuna tók þrjú ár, enn eitt dæmi um stjórnsýslu sem er ekki til fyrirmyndar, en þá var loksins veitt varanlegt starfsleyfi. Þetta er líka óþolandi dæmi gagnvart starfsfólki og fyrirtæki. Ráðherra beitir síðan varfærinni, eins og hún kallar það, reiknireglu. Hún hunsar vísindamenn Hafrannsóknastofnunar. Hún notar reiknireglu sem enginn annar notar, ekki meðal þjóða sem við erum í samstarfi við í Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu. Þetta vekur upp spurningar um hvort hún ætli að beita reiknireglum við nýtingu annarra nytjastofna,“ sagði Jón Gunnarsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: