- Advertisement -

Jón Gunnarsson er grallari

Sjálfstæðismenn verða að ná yfirhöndinni í kosningabaráttunni í Reykjavík. Flokknum er mikið mál að komast í meirihluta í þessu gamla höfuðvígi flokksins. Ekkert bendir til að það takist, ekki einsog staðan er nú.

Margt er reynt. Vilji er meðal flokksmanna til að Davíð Oddsson snúi aftur í stjórnmálin og leiði listann, og ef ekki, þá að Björn Bjarnason reyni á ný. Hvað sem hver vill, er víst að ólíklegt er að þeir gefi kost á sér.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið afstöðu; er á móti reiðhjólavæðingu, vill margra hæða gatnamót, uppbyggingu nýrra hverfa svo eitthvað sé nefnt. Vandinn er sá að þetta hefur ekki fært flokknum aukið fylgi.

Eitt mál í borginni er heitara en önnur. Það er flugvöllurinn. Sjálfstæðismönnum í Reykjavík hefur borist óvæntur og góður liðsauki. Sveitastjórnar- og samgönguráðherrann, Jón Gunnarsson, hefur enn sem komið er leikið sterkasta leikinn í kosningabaráttunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aðrir hafa tuðað og fáir hafa hlustað. Jón er sannur verkamaður. Lætur til sín taka. Í krafti ráðherraembættisins hefur hann leikið sterkan leik. Hann meinar ekkert með því sem hann segir, hann er bara að aðstoða flokksfélaga sína í borginni.

Jón fann takt sem aðrir rötuðu ekki á. Jón þykist ætla að sjá til þess að byggð verði ný flugstöð við flugvöllinn, meira að segja færanleg flugstöð, við flugvöll sem núverandi meirihluti ætlar að loka. Þar með hefur Jón leikið óvæntan sóknarleik og komið núverandi valdahöfum í vörn.

Fyrir fáum árum fékk Alfreð Þorsteinsson þá snilldarhugmynd að reka Sjálfstæðismenn í vörn. Hann sagðist vilja selja Perluna. Og allt varð vitlaust. Alfreð meinti þetta aldrei, ekkert frekar en Jón núna. Jón Gunnarsson er mesti grallarinn í Sjálfstæðisflokknum.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: