„Það skiptir miklu máli að við sem kjörin erum á Alþingi Íslendinga virðum skýrar reglur um lagalega ábyrgð ráðherra,“ sagði Helga Vala Helgadóttir vegna þeirrar stöðu sem er vegna starfshátta Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.
„Lagt var til í nýju stjórnarskránni að ákæruvald vegna afglapa ráðherra yrði tekið af Alþingi og landsdómur felldur niður og hefur ráðamönnum í seinni tíð hugnast að tala niður þá lagalegu og pólitísku ábyrgð sem ráðherrar bera ótvírætt samkvæmt stjórnarskrá og lögum um ráðherraábyrgð. Það er enginn vafi á því að þau lög gilda og sé vilji til að breyta því þarf að breyta stjórnarskrá sem og lögum um ráðherraábyrgð en þangað til höfum við ekkert val. Við þurfum að fara að lögum. Björg Thorarensen, einn okkar fremsti lögspekingur og nú dómari við Hæstarétt, hefur fjallað ítarlega um lög um ráðherraábyrgð sem eru sambærileg þeim sem gilda á Norðurlöndum. Markmið laganna er að hægt sé að refsa fyrir þau brot sem sérstaklega má óttast að ráðherra fremji og refsiábyrgð annarra laga nær ekki til. Varða þau eingöngu þau brot sem ráðherra fremur í embætti sínu, brot gegn stjórnarskrá, brot gegn landslögum eða brot gegn góðri ráðsmennsku og á það við þegar ráðherra misbeitir stórlega valdi sínu af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, athafna- eða athafnaleysi.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks sem hrökklast hafa úr embættum á undanförnum árum töluðu gjarnan um pólitíska ábyrgð sína sem borin væri á fjögurra ára fresti í kosningum. Hin pólitíska ábyrgð gagnvart þinginu lýsir sér hins vegar hverju sinni í því að þeir sitja í krafti meirihluta þingmanna. Þannig má segja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra smitist yfir á þingmenn sem veita ráðherra stuðning. Þingræðisregla stjórnarskrárinnar er skýr með þetta. Á meðan meirihluti þings ver sinn ráðherra ber allur meirihlutinn ábyrgð á ráðherranum, ekki bara flokkssystkin ráðherrans.“
-sme