Vigdís Hauksdóttir tekur sendingunni frá Jóni Gnarr ekki þegjandi.
Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri kemur Degi B. Eggertssyni eftirmanni sínum til varnar í furðulegri færslu á fésbókinni í dag og skýtur skotum í allar áttir um leið.
Á Jóni Gnarr er helst að skilja að ekkert sé við óráðsíu og óstjórn í Ráðhúsinu að gera – þetta sé kerfislegur vandi sem hvorki hann sem borgarstjóri eða Dagur ráði nokkuð við.
Svo kvartar hann yfir umræðunni og yfirlýsingum mínum og klykkir út með því að blanda veikindum Dags inn í þetta – svona eins og það sé ódrengilegt að ræða borgarmálin af þeim sökum.
Ætli megi ekki segja að dagskrárvald vinstri manna í íslenskri þjóðmálaumræðu kristallist í þessari furðufærslu Jóns Gnarr.
Hann er í fyrsta lagi pirraður á því að kallað sé eftir því að borgarstjóri vinstri manna axli ábyrgð á því rugli sem viðgengst fyrir allra augum undir hans stjórn. Hann er auðvitað vanur hinni óskráðu reglu margra fjölmiðla að gagnrýna bara stjórnmálamenn sumra flokka – en láta aðra alveg í friði.
Gott dæmi um karlrembuna í Jóni Gnarr og kvenfyrirlitninguna í orðum hans sem snúa að mér – þegar hann undrast að Ríkisútvarpið hafi tekið við mig viðtal: „Meira að segja Vigdís Hauksdóttir fékk fyrirsögn á RÚV um daginn. Hver er eiginlega í alvöru að pæla í því hvað henni finnst?“
Jón Gnarr telur augsýnilega að oddviti stjórnmálaflokks í borgarstjórn – og fyrrverandi alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis – eigi ekki að komast að í fréttum RÚV af því hann tilheyrir ekki réttum flokki – er ekki hluti af góða fólkinu og er þar að auki kona.
Af skoðunum Jóns Gnarr hefur um langt skeið verið meira framboð en eftirspurn. Hann hefur verið kvartsár undan umræðu í sinn garð – milli þess sem hann hamast á pólitískum andstæðingum og fargar málverkum sem hann hafði með sér heim í óleyfi af borgarstjórnarkontórnum.
Reglan hefur nefnilega verið sú, að meirihlutinn í borgarstjórn – bæði undir stjórn Dags B. Eggertssonar og Jón Gnarr fékk um árabil frítt spil og fór sínu fram – fjarri smásjá fjölmiðla og minnihlutans.
Sá tími er liðinn.
Það er ekki skrítið að þeir félagar Dagur og Jón séu óhressir með það – en þeir mega vera vissir um að sú sem þetta ritar ætlar að halda sínu striki ótrauð – með heilbrigða gagnrýni og almannahagsmuni að leiðarljósi – í þágu fólksins í borginni – því það á svo miklu betra skilið.
Að lokum er rétt að árétta að ég hef hvergi látið hafa eftir mér að Hrólfur og Dagur eru vondir menn.