Kristinn Hrafnsson blaðamaður skrifaði:
Þegar Jodie Foster leikkona tók á móti Golden Globe verðlaununum í fyrradag sem besta leikkona ársins fyrir hlutverk sitt í True Detective: Night Country sendi hún sérstakar þakkir til Íslendinga í ræðu sinni – en þáttasería HBO var tekin upp á Íslandi. Þakkirnar beindust líklegast mest að því að íslenskir skattgreiðendur borguðu drjúgan hluta af launum hennar fyrir hlutverk lögreglukonunnar í seríunni. Í heildina greiddi Kvikmyndamiðstöð ríflega fjóra milljarða til framleiðslunnar og gerði það að verkum að sjóðir miðstöðvarinnar tæmdust, svo lítið sem ekkert er til skiptana fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að búa til íslenskar bíómyndir. Rausnarskapur Íslendinga var svo mikill við að ríkisstyrkjum framleiðslu sjónvarpsefnis í Hollywood – fyrir allan peninginn.
Reyndar er erfitt að fá tölur til að ganga upp í þessu dæmi. Þegar HBO bankaði uppá báðu þeir um að fá endurgreiðslu á kostnaði sem félli til við framleiðsluna á Íslandi og hækkun á því hlutfalli úr 25% í 35%. Þeim var tekið opnum örmum og endurgreiðsluhlutfallið snarlega hækkað upp með flýtimeðferð á Alþingi.
Þá var nefnt í fréttum að áætlaður framleiðslukostnaður seriunnar yrði 60 milljónir dollara. Í fréttum víða á netinu er þessi tala ennþá nefnd sem heildarkostnaður við gerð sjónvarpsseríunnar en 60 milljónir dollara eru jafnvirði 8,4 milljarða króna. Nú mætti ætla að menn hafi gert ráð fyrir því að endurgreiðsla úr íslenska ríkissjóðnum færi aldrei yfir 35% af þeirri tölu – og væntanlega eitthvað undir, því einhver hluti framleiðslukostnaðar hlýtur að hafa fallið til í Bandaríkjunum. En ríflega 4 milljarða króna greiðsla úr ríkissjóði en nú talsvert yfir þeirri tölu enda stappar nærri að vera 30 milljónir dollara eða tæpur helmingur af því sem serían á að hafa kostað í heild – sem sagt um 60 milljónir dollara. Varla voru íslenskir skattgreiðendur að borga helminginn af framleiðslu seríunnar, eða hvað?
Ef til vill er framleiðslukostnaður sagður 60 milljónir dollara AÐ TEKNU TILLITI til rausnarlegs framlags frá íslenskum skattgreiðendum. Þá hefur Ísland borgað 1/3 af heildarkostnaði sjónvarpsseríunnar að því gefnu að nánast allur framleiðslukostnaður féll til hér á landi eða i það minnsta á EES svæðinu. Sem er erfitt að trúa.
Á vef kvikmyndamiðstöðvar segir að skilyrði fyrir endurgreiðslu sé eftirfarandi: „…að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.“
Þessi framleiðsla Night Country uppfyllir ekkert af fyrstu skilyrðunum. Það er myrkur hávetur í allri seríunni. Ekkert sem viðkemur sögu Íslands bregður þar fyrir, engin íslensk menning er þar kynnt né heldur nokkur íslensk náttúra. Það helgast ef til vill að því að Jodie Foster er að leika lögreglukonu í Alaska í Bandaríkjunum og ef einhverri sögu og menningu bregður þar fyrir, er það sú sem sprettur frá frumbyggjum í Alaska. Þetta verkefni er því lítill stuðningur við íslenskan túrisma en vel kann að vera að hún örvi vetrarferðir til Alaska.
Seinni hluti skilyrðana er vissulega til staðar. Íslenski kvikmyndatæknigeirinn fékk vitaskuld haug af reynslu, þekkingu (og peningum) og naut efalítið góðs af því að tæpa af brunni HBO þegar kemur að „þekkingu á listrænum metnaði“. Það er svo spurning hvort ekki hefði mátt örva þann listræna metnað með því að láta íslenska græjufólkið bara fá beint þessa fjóra milljarða.
Svo finnst íslenskum kvikmyndagerðarmönnum efalítið dálítið súrt í broti að þeir fá enga aura til þess að efla og örva sinn listræna metnað, þar sem HBO hefur þurrausið alla sjóði. Þeir geta ef til vill beðið Jodie Foster að koma og stappa í þá stálinu.
Á eigin kostnað.