Bið ég Guð og þjóðina að fyrirgefa mér að hafa ekki reynt að gera allt vitlaust á þessum tíma.
Guðmundur Ólafsson hagfræingur skrifar:
Árið 2017 flutti ég búferlum og seldi eign og keypti aðra og átti í afgang þrjár milljónir króna, sem ég lagði í bundna verðtryggða bók til þriggja ára hinn 16.9. 2017. Um daginn vitjaði ég höfuðstólsins, sem þá var laus. Niðurstöður þessarar ávöxtunar fylgja hér á eftir og er miðað við verðtryggingu, bankainnistæðu 16.6. 2020 og gengi Bandaríkjadollara og svissnesks franka:
Þarna sést að ef ég hefði keypt svissneska franka og geymt undir koddanum í þrjú ár hefði ég hagnast um 885 þús. kr. umfram það sem ég fékk frá bankanum en 656 þús. kr. ef ég hefði geymt dollara undir sama kodda. Ástæða þessarar herfilegu útreiðar íslenskrar innistæðu er tvíþætt. Í fyrsta lagi miðast íslensk verðtrygging ekki við gengi gjaldmiðla heldur meðaleinkaneysluútgjöld sem endurspegla seint og illa verðmæti peninga. Samt er fjármagnstekjuskatturinn verri sökudólgur og hefur vinur minn Vilhjálmur Bjarnason gert honum góð skil hér í blaðinu.
Þar verð ég að játa syndir mínar: Fyrir um 25 árum var ég skipaður í nefnd til þess að koma á fjármagnstekjuskatti. Þar var sjálfur ráðuneytisstjórinn Indriði Þorláksson og urðum við fljótt sammála um að þessar tekjur bæri að skattleggja eins og aðrar tekjur. Forystumenn verkafólks í nefndinni töldu það fráleitt og skipti nú engum togum að Indriða var vikið úr nefndinni og inn kom hlýðnari maður. Forystumenn verkafólks töldu einnig ófært annað en að skattleggja verðbætur eins og vexti saman, því ógjörningur væri að greina í sundur verðbætur og vexti. Þetta varð ofan á. Sagt var að skatturinn yrði einungis 10%, en verkalýðsflokkur hækkaði þetta síðan í 22%.
Þetta er vitlausasti gerningur sem ég hef staðið að og bið ég Guð og þjóðina að fyrirgefa mér að hafa ekki reynt að gera allt vitlaust á þessum tíma.
Grein Guðmundar birtist í Mogga dagsins.