Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félagsmálaráðherra, á þingfundi í gær, varð uppvís að furðulegri framgöngu gangvart Alþingi. Hér ætla ég fjalla um orðaskipti hans og Jakobs Frímanns Magnússonar. Þetta er allt hið undarlegasta mál.
Byrjum á Jakobi:
„Þann 13. júní árið 2021 voru einungis sjö þingmenn fjarstaddir en 56 viðstaddir í þessum sal þegar einróma var samþykkt sú tillaga að stofna skyldi embætti hagsmunafulltrúa eldri borgara. Löggjafinn ákvað þetta fyrir tæpum tveim árum síðan. Þetta voru stórtíðindi. Þeim var fagnað um gjörvallt samfélag, sérstaklega meðal þeirra sem byggðu upp það velferðarsamfélag sem við búum við í dag og við getum haft mörg fögur orð um. Flokkur fólksins fagnaði þessu alveg sérstaklega því að í þessari samþykkt þingheims kristallaðist uppskera starfs flokksins í þau fjögur ár sem hann hafði starfað hér á þinginu og miklar þakkir voru veittar þeim sem þarna stóðu saman um málið. Skipaður skyldi hópur er skila skyldi fyrir 1. apríl 2022 tillögum um hvers konar umfang, fjármögnun og annað, skyldi útfærast með þessari þingsamþykkt. Það gekk reyndar ekki eftir. 1. apríl var það ekki, það var ekki aprílgabb en það var ekki staðið við fyrirheitin um að skila inn þeim tillögum er skyldi taka mið af. Í dag erum við að fjalla um tillögu sem er um margt ágæt en engan veginn það sem sammælst var um. Ég treysti því að hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra sé maður orða sinna og efnda. Ef þingið stendur ekki við fyrirheit sín og orð, hvernig getum við ætlast til þess að aðrir í samfélaginu geri það?
Nú vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra: Er ekki alveg skýrt að þessi hagsmunafulltrúi eldra fólks er óklárað verk, með fullri virðingu fyrir því sem hér verða greidd atkvæði um í dag?“
Guðmundur Ingi taldi þessu fljótsvarað:
„Aðeins til að rifja upp þetta ágæta mál þá var samþykkt hér þingsályktunartillaga, líkt og háttvirtur þingmaður kom inn á áðan, og sá sem hér stendur skipaði starfshóp til að vinna að þessu máli. Í þeim starfshópi var fulltrúi Alzheimersamtakanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands eldri borgara, heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Niðurstaða þess hóps var sú að það væri skynsamlegra, eins og málin standa núna, að efla ráðgjöf til eldra fólks og upplýsingagjöf, m.a. vegna þess að til staðar eru eftirlitsstofnanir eins og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem var sett á fót um áramótin 2021/2022, og embætti landlæknis sem væru að sinna ákveðnum hluta þeirra kvartana sem geta komið upp þegar um er að ræða þjónustu við eldra fólk. Mat hópsins var að það væri skynsamlegra að auka upplýsingagjöfina, m.a. til alzheimersjúklinga og aðstandenda þeirra. Það er aðgerð um það í þeirri aðgerðaáætlun sem hv. þingmaður nefndi hér áðan og á sama hátt upplýsingagjöf sem er líka í þeirri aðgerðaáætlun. Á sama tíma myndi gögnum vera safnað. Þetta yrði tveggja til þriggja ára tilraunaverkefni, gögnum yrði safnað um hvar skórinn kreppir þegar kemur að hagsmunum eldra fólks og á grundvelli þess yrði litið aftur á þessa þingsályktunartillögu með það að leiðarljósi hvort þörf sé á að koma á sérstöku embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Samkvæmt því sem starfshópurinn leggur til er ákvörðun um akkúrat það frestað á meðan við öflum gagna og meðan við förum í verkefni sem eiga að tryggja betri upplýsingar og meiri ráðgjöf til eldra fólks.“
Eðlilega var Jakob Frímann ekki sáttur við yfirklór ráðherrans:
„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svörin en ég ætla ekki að trúa því að hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra ætli að gera 56 þingmenn að ómerkingum. Það var samþykkt hér í þinginu fyrir tæpum tveimur árum, af öllum viðstöddum þingmönnum, 56 að tölu, að það skyldi stofna þetta embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks; fólksins sem kann ekki endilega á .is kerfið eða internetið eða nútímatækni. Við erum að tala um fólk sem fæddist jafnvel fyrir daga útvarpsins og sjónvarpsins og er ekki tæknivætt og verður ekki þjónað með þeim hætti sem víðast hvar er verið að bjóða upp á í bankaþjónustu og öðru. Ég neita að trúa því að við ætlum að gera 56 þingmenn, þingheim, að ómerkingum ákvarðana sinna með því að láta einhvern starfshóp breyta áherslunum og skoða eftir fjögur til fimm ár hvað gera eigi í máli sem búið er að ákveða að gera hér. Ég vona því að hér verði búið til svigrúm til að standa við ákvörðun þingsins frá 13. júní 2021. Annað væri hneisa.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson á lokaorðið:
„Ef við ætlum okkur að hætta að hlusta á þær ráðleggingar sem við fáum frá sérfræðingum, ef við ætlum að hætta að hlusta á það sem eru skynsamlegar tillögur til þess að meta eitthvað sem búið er að leggja til, og vissulega samþykkja sem þingsályktunartillögu frá Alþingi, þá held ég að það sé ekki endilega neikvætt heldur er það jákvætt. Viljum við ekki byggja undir þær ákvarðanir sem hér eru teknar með sem faglegustum hætti? Það sem Flokkur fólksins fer hér fram með og ruglar síðan saman við aðgerðaáætlun sem hér er til afgreiðslu síðar í dag er ekkert annað en stormur í vatnsglasi vegna þess að þeim finnst sennilega þessi aðgerðaáætlun bara allt of góð og allt of gott að hún komi frá hæstvirtri ríkisstjórn.“
Skemmst er frá að segja að fleiri þingmenn létu í ljós ósætti með hvernig félagsmálaráðherrann hefur hagað þessu máli. Eðlilega.