„Ef maður rýnir í nafn háttvirts þingmanns, Þórarins Inga Péturssonar, í hans fangamark, mætti e.t.v. skilgreina hann sem einn af fjölmörgum föngum aðstæðna þeirra sem ríkja á Íslandi í þessum efnum. Ég veit alla vega að sauðfjárbændur eiga afar erfitt. Ég hef talað við þá ýmsa, bæði í Húnaþingi og norðaustrinu. Af því að ég dvel hér við fangamarkið og síðari hluta þess, „i“ og „p“, ætla ég rétt að minna á nýsköpun í búvöruframleiðslu sem rekja má suður til Ítalíu snemma á 19. öld,“ sagði Jakob Frímann Magnússon á Alþingi.
„Þar voru munkar að störfum rétt eins og frumbyggjar Íslands voru að líkindum munkar og fundu sér sitthvað til. Þessir menn tóku upp á því að blanda saman blómkáli og grænkáli með þeim hætti að til varð ný grænmetistegund. Þarna varð til „intellectual property“, eins og það heitir á ensku, „IP“, og síðan kom athafnaskáldið Albert Broccoli og sló eign sinni á þessa uppfinningu munka og til varð mikill auður í brokkólíframleiðslu í heiminum sem varð síðan undirstaða annars „IP“, „intellectual property“ sem er stærsta samfellda kvikmyndaævintýri Bretlands. Á ég hér við Albert Broccoli júníor sem gerðist framleiðandi James Bond myndanna. Er ekki kominn tími á nýsköpun í íslenskum landbúnaði sem gæti leitt til sigurgöngu af þessum toga?“