- Advertisement -

Jafnt skal yfir alla að ganga

Það er fínt að þessi umræða fer loks af stað fyrir alvöru. Auðvitað á manneskja ekki að vera upp á maka sinn komin varðandi fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi. Hins vegar á jafnt yfir alla að ganga. Ef tekjur maka skipta máli ef þú ert öryrki, afhverju skiptir það ekki máli annarsstaðar í kerfinu? Afhverju eru lífeyrisþegar þeir einu sem mega ekki eiga neitt eða þéna örfáar krónur án þess að ríkið komist í það? Fólk er bara fast í ánauð.

Á ekki möguleika

Ég þekki hjón. Millistéttarfólk og fyrir nokkru síðan verður konan óvinnufær vegna alvarlegra veikinda og útséð að hún fari nokkru sinni aftur út á vinnumarkaðinn. Hún, á miðjum aldri, verður öryrki. Hún er þar með fjárhagslega upp á eiginmann sinn kominn. Króna á móti krónu alla leið. Hún er ekki lengur fjárhagslega sjálfstæð. Hvað ef þessi hjón skilja? Í hvaða stöðu er eiginkonan þá komin? Hún einfaldlega á ekki möguleika. Svona dæmi eru svo ótalmörg og mjög ólík. Ég tek fram að þessi hjón eru ekki að kvarta en þetta snýst fyrst og fremst um sjálfstæði einstaklingsins.

Á öryrkjum er framið rán

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er reyndar ólík umræða og efni í aðra þetta með skerðingar lífeyrisþega almennt. Ég hef komist að því að ríkið fjármagnar Tryggingastofnun að mestu með tekjum og eignum þeirra sem þurfa á lífeyriskerfinu að halda. Fólk fær tekjur úr lífeyrissjóðum og það skerðir lífeyri frá TR. Eignir fólks eru fyrst étnar af ríkinu áður en það fær óskertan lífeyri frá TR. Þetta er auðvitað alveg snargalið og mér finnst undarlegt að hvorki stjórnmála- né fjölmiðlamenn hafi kafað dýpra ofan í þessi mál og séð óréttlætið sem hér ríkir.

Oft fá öryrkjar á sig aumingjastimpil en þessir aumingjar eru samt þeir sem greiða hlutfallslega hvað mest til ríkisins í formi skatta. Á öryrkjum er framið rán. Eignaupptaka og skerðingar þar til öryrkinn stendur eftir berstrípaður og kolfastur í fátækrargildru.

Fínt ef Jón Þór tekur umræðuna

Það væri fínt ef Jón Þór Ólafsson tæki þessa umræðu úr því það er verið að líkja þessu saman enda snýst þetta fyrst og fremst um sjálfstæði einstaklingsins og frelsi hans til að lifa óháður öðrum.

 

Ragnheiður Skúladóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: