- Advertisement -

Jafnaðarlaun eru forskastanleg

Vinnumarkaður Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, er þungorð í grein á heimasíðu félagsins, en þar segir hún meðal annars: „Atvinnurekendur, ykkar er ábyrgðin. Ykkur ber að greiða laun í samræmi við kjarasamninga. Jafnaðarlaun gera starfsfólki erfitt fyrir að sjá hver launin eru í raun og veru – sérstaklega þeim sem eru nýir á vinnumarkaði eða þekkja ekki réttindi sín. Við viljum að greidd séu laun samkvæmt kjarasamningum og að launaseðillinn sé auðskiljanlegur öllum. Af hverju vefst þetta fyrir atvinnurekendum? VR er, og hefur alltaf verið, tilbúið til að veita atvinnurekendum aðstoð við útreikning launa.“

Ólafía segir að vinnutími ungs fólks í VR sé að stærstum hluta utan dagvinnutíma. Næstum átta af hverjum tíu félagsmönnum undir 25 ára aldri vinna meirihluta vinnu sinnar á kvöldin og um helgar, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR 2014. Þegar við spurðum unga fólkið í könnuninni hversu hátt hlutfall vinnu þeirra væri utan dagvinnutíma var svarið 63% að meðaltali, hvorki meira né minna, segir Ólafía.

Óásættanleg framkoma 

„Þessar niðurstöður undirstrika enn og aftur hversu mikilvægt það er fyrir stéttarfélög eins og VR að berjast fyrir gegnsæi launagreiðslna. Undanfarna daga, vikur og jafnvel mánuði höfum við lesið margar fréttir af ungu fólki sem er hlunnfarið á vinnustað sínum. Það er forkastanlegt að ungu fólki séu í dag greidd jafnaðarlaun sem uppfylla ekki skilyrði um lágmarkstaxta og ákvæði um eftir- og yfirvinnu samkvæmt kjarasamningum – hvað þá þegar þeim er svo sagt upp störfum fyrir það eitt að leita réttar síns. Slík framkoma gagnvart ungu fólki sem margt er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði er algerlega óásættanleg.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er mikilvægt að gagnkvæm virðing ríki milli starfsmanna og atvinnurekenda á vinnumarkaði og það skiptir sköpum að fyrsta reynsla unga fólksins í starfi einkennist af skilningi. Það skilar sér aftur í aukinni framlegð, betri þjónustu og ánægðara starfsfólki.“

Herferð – Skóli lífsins 

„Megináherslan í starfsemi VR árið 2014 er starfsmenntun – sérstaklega fyrir unga félagsmenn. Í tæp tuttugu ár hefur VR farið árlega í alla helstu grunnskóla á félagasvæði sínu og fjölmarga framhaldsskóla til að kynna nemendum réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Nú ætlum við að gera enn betur. Í vor hófst undirbúningur fyrir herferð sem hleypt verður af stokkunum í haust. Yfirskrift hennar er Skóli lífsins og er markmiðið að kynna ungu fólki réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði.

Við viljum tryggja að unga fólkið fái launaseðil og rétt laun fyrir sína vinnu. Við viljum tryggja að unga fólkið kunni að lesa launaseðilinn sinn og viti hvað það hefur í laun ÁÐUR en það byrjar að vinna. Við viljum efla sjálfstraust þeirra í starfi svo þau standi á rétti sínum. Og síðast en ekki síst viljum við fá umræðu um stöðu ungs fólks á vinnumarkaði.

Ég vil hvetja alla, og sérstaklega unga fólkið, til að skoða launaseðla sína vandlega. Ef minnsti vafi leikur á að launin séu rétt, bendi ég ykkur á að hafa samband við kjaramálasérfræðinga VR sem geta farið yfir launaseðlana og veitt alla þá aðstoð sem þarf.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: