Fréttir

Ítrekaðar heimsendaspár á Alþingi

By Miðjan

May 14, 2019

Við erum eina landið í heiminum sem heimilað hefur veiðar á langreyði að nýju og það er algerlega óskiljanlegt.

„Ég verð að segja eftir að hafa verið í þessum sal í alllangan tíma, bráðum 16 ár, hef ég með reglulegu millibili heyrt heimsendaspár um viðskiptahagsmuni Íslendinga, bæði hvað varðar útflutning og ferðaþjónustu vegna ákvarðana sem við höfum verið að taka á sviði hvalveiða. Ég hef ekki séð nein merki um að hvalveiðar hafi haft þau áhrif eða að þær heimsendaspár sem margoft hafa verið settar fram við okkur þingmenn af ýmsu tilefni og í tengslum við hvalveiðar hafi komið fram eða átt við rök að styðjast.“

Þetta sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, vegna tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um könnun á áhrifum hvalveiða um ímynd þjóðarinnar.

„Ég lagði þingsályktunartillögu fyrir þingið í gær ásamt þingmönnum úr Samfylkingu og Pírötum um að kanna viðhorf fólks í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Kanada, Frakklandi og Bretlandi um áframhaldandi veiðar okkar Íslendinga á hval,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Það er sjálfsagt og eðlilegt að skoða þessa mikilvægu markaði eftir þá algerlega óskiljanlegu ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hefja veiðar á langreyði á ný. Við erum eina landið í heiminum sem heimilað hefur veiðar á langreyði að nýju og það er algerlega óskiljanlegt,“ sagði hún.

„Mér finnst rétt að við höldum því til haga í umræðunni að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að heimila veiðar eru byggðar á traustum vísindalegum grunni. Þær tegundir sem heimilað er að veiða úr eru ekki með neinum hætti í nokkurri hættu,“ sagði Birgir.