Gylfi Magnússon skrifaði áhugaverða grein. Þar sýnir hann okkur að það rangt þegar því er haldið fram að ísensku bankarnir séu litlir. Þeir eru bara alls ekki.
Gylfi skrifar: „Spurst hefur út að einhverjir séu að leika sér með hugmyndir um að sameina tvo af stóru íslensku bönkunum. Nú er það Arion banki og Íslandsbanki. Síðast þegar svona hugmyndir voru viðraðar átti að sameina Landsbankann og Íslandsbanka. Þetta er auðvitað léttgeggjuð hugmynd sem stæðist aldrei samkeppnislög – fyrir utan alla aðra ókosti – en samt gaman að velta fyrir sér rökunum. Þau eru í grundvallaratriðum stærðarhagkvæmni í bankarekstri, þ.e. að bankarnir séu of litlar einingar. Ef við berum íslensku bankana þrjá hins vegar saman við banka í Bandaríkjunum þá sést að þetta er fjarri lagi. Í Bandaríkjunum eru skv. síðustu talningu 1.835 bankar með eignir umfram 300 milljónir dala (svo eru fjölmargir smærri). Meðalbankinn í Bandaríkjunum á þessum lista er minni en sá minnsti af þeim íslensku, með eignir upp á 8,9 milljarða dala, meðan þeir íslensku eru með eignir á bilinu 10,0 til 11,7 milljarðar dala. Raunar væru allir íslensku bankarnir nálægt því að komast inn á topp 100 skv. stærð í Bandaríkjunum, væru í 111. til 120. sæti. M.ö.o. eru 1700 bandarískir bankar minni en sá minnsti af þessum þremur íslensku, þótt minnstu bönkunum í Bandaríkjunum sé sleppt! Íslensku bankarnir eru því alls ekki litlir í alþjóðlegum samanburði, þótt þeir séu auðvitað litlir miðað við stærstu banka heims, t.d. er stærsti bandaríski bankinn, JP Morgan, nær 200 sinnum stærri en sá stærsti hér, Landsbankinn. Það verður reyndar að hafa ýmsa fyrirvara við svona samanburð, m.a. mismunandi uppgjörsstaðla, en það breytir því ekki að það er ekki hægt að nota þau rök fyrir sameiningu tveggja af stóru íslensku bönkunum að þeir séu óþægilega litlir.“