„Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur sendu í gær frá sér ályktanir aðalfunda félaganna þar sem þess er krafist að fram fari ítarleg rannsókn á verðmyndun makríls á árunum 2012 til 2018,“ segir í frétt á Mogganum.
Þar segir einnig: „Fullyrt er að tekjur útgerðarfyrirtækja gætu verið tvöfalt hærri ef miðað væri við heimsmarkaðsverð. Rannsakað verði hvort útgerðarmenn séu kjánar sem ekki leiti eftir besta verði og verði þannig árlega af tug milljarða króna tekjum af makríl. Spurt er hvort tilgangurinn sé að lækka laun sjómanna og komast hjá skattgreiðslum.“
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir skoðun standa yfir og segir í fréttinni: „Ég vonast til að við getum fengið niðurstöður fljótlega á þessu ári. Vonandi mun hún leiða í ljós skýringar á þeim verðmun sem hefur verið í umræðunni hér á landi.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir í Mogganum um sölu íslenskra fyrirtækja á sölu afurða til útlanda: „Ég veit ekki til þess að þau hafi á sínum snærum erlend sölufyrirtæki og taki þar út óeðlilegan hagnað, eins og ásakanir eru um.“
Heiðrún Lind hefur áður stigið út á þetta hála svell og rann þá beint á höfuðið.