Íslendingar eru álíka góðir og slæmir og fólk í öðrum löndum, en sem hópur erum við ákaflega frumstæð.
Gunnar Smári skrifar:
Lærdómur síðustu viku er að íslenskir ráðherrar eru álíka vitlausir og ráðherrar almennt; það er mannlegt að gera mistök, vera kjáni og telja að eitt eigi við þig en annað um aðra. Mannskepnan er fallin vera, samkvæmt guðfræðilegri skilgreiningu, breysk og ófullkomin og þótt hún beri í sér guðlegan neista og viti oftast innst inni hvað er rétt og satt, þá reynist henni ómögulegt að fylgja því leiðarljósi alla daga, hverja stund.
En þetta er ekki lærdómurinn, við vissum fyrir að Íslendingar eru eins og annað fólk, hver um sig. Lærdómurinn er að sem hópur skerum við okkur frá öðrum hópum. Þar ræður mestu, að víðast í okkar nágrenni er almennt samkomulag um að þoka hópnum áfram í átt að meira lýðræði, að hópurinn geti þroskast með réttum viðbrögðum fjöldans þegar yfirvöld starfa þvert á hagsmuni almennings eða þegar yfirstéttin ofmetnast og opinberar að hún telur sig hafna yfir þær kröfur sem hún gerir til almennings; að þetta sé afstaða sem ekki samrýmist lýðræði og þeirri hugmynd að kjörnir fulltrúar séu fulltrúar og þjónar almennings en ekki aðalborin yfirstétt. Við vorum þar og viljum ekki skapa slíkt ástand; við viljum fram til betra samfélags.
Hér heima hefur þetta samkomulag ekki náðst, líklega fyrst og fremst vegna þess hversu útbreidd fyrirlitningin á alþýðunni er, lýðnum, fjöldanum; og hversu margt fólk tekur ætíð afstöðu með valdinu, eins og það trúi að verja þurfi valdsfólk fyrir lýðnum en ekki öfugt.
Þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var staðin að því sama á Íslandi og Dara Calleary á Írlandi reis hér upp hávær hópur sem réðst gegn öllum kröfum um að íslenskur ráðherra bæri ábyrgð á sínum ákvörðunum, sínum kjánaskap og dómgreindarleysi. Enginn slíkur hóp reis upp á Írlandi, engar slíkar raddir heyrðust. Þótt þessar tvær þjóðir hafi stýrt eigin málum svo til álíka lengi eru Írar komnir miklu miklu lengra í að móta sér lýðræðislegt samfélag.
Vandinn á Íslandi er ekki fólkið almennt, hvert um sig. Við erum engu betri eða verri en fólk í útlöndum. Vandinn er að við erum frumstæð sem hópur. Ýmsir þættir úr eldra samfélagsformi, úr vistarbandi bændasamfélagsins og embættismannakerfi Danakóngs, hafa ekki dáið og lifa enn inn í lýðræðiskerfinu og hafa spillt því, staðið í vegi fyrir að það þroskaðist. Og fólkið sem berst fyrir því að þessir þættir dafni enn, þrælslundin og botnlaus hlýðni og virðing fyrir valdsfólki, lætur eins og það sé boðberar mannúðar og réttlætis. Slíkt gæti hvergi gerst nema á Íslandi. Sá sem myndi halda slíku fram yrði hleginn í hel.
Það mætti kannski stytta þennan pistil niður í: Íslendingar eru álíka góðir og slæmir og fólk í öðrum löndum, en sem hópur erum við ákaflega frumstæð.