Stjórnmál Danir kusu til þings í fyrra og þar fékk Danski þjóðarflokkurinn meira fylgi en áður, eða um fimmtung atkvæða. Sigur þessa flokks, sem setur stranga innflytjendalöggjöf á oddinn, var vissulega stór en féll eilítið í skuggann af framgöngu Alternativet. Þessi nýi, græni flokkur, fékk nefnilega tæp fimm prósent atkvæða og þar með níu þingmenn kjörna. Fyrir utan umhverfismálin þá vill Alternativet beita sér fyrir því að virkja hinn almenna Dana í stefnumótun og ákvarðanatöku. Flokkurinn stóð fyrir fjöldamörgum málþingum í Danmörku fyrir síðustu kosningar. Stofnandi Alternativet er Uffe Elbæk og í viðtali við danska vefritið Politiko segir hann marga vera áhugasama um hugmyndafræðina á bakvið flokkinn, þar á meðal Pírata á Íslandi.
Hvítþveginn af Ríkisendurskoðun
Uffe Elbæk er rúmlega sextugur en tók fyrst sæti á danska þinginu eftir þarsíðustu kosningar árið 2011. Þá bætti þáverandi flokkur hans, Radikale Ventre, við sig töluverðu fylgi og komst í ríkisstjórn. Elbæk sagði hins vegar af sér í lok árs 2012 eftir að hafa verið gagnrýndur harðlega fyrir að hafa leigt aðstöðu hjá listamannaskólanum AFUK fyrir alls kyns móttökur og boð, en þar var maðurinn hans nýráðinn starfsmaður. Þessi tengsl þóttu óheppileg. Ríkisendurskoðun Danmerkur hefur hins vegar gefið út að Elbæk hafi ekki brotið neinar reglur með viðskiptum sínum við AFUK. Í kjölfarið kaus Elbæk hins vegar að kljúfa sig frá þingflokki Radikale og stofna Alternativet. Samkvæmt fyrrgreindu viðtali í Politiko eru það ekki bara íslenskir Píratar sem eru spenntir fyrir þessum nýja vettvangi því flokkur með sama nafn hefur verið stofnaður í Noregi og í Svíþjóð og eru þreifingar í gangi. Fulltrúar Podemos á Spáni hafa einnig verið í sambandi. Elbæk leynir ekki ánægju sinni með þennan mikla áhuga frá útlöndum á stefnu Alternativet.
Eykur fylgið, samkvæmt skoðanakönnunum
Þess má geta að forsvarsmenn Bjartrar framtíðar hafa oft líkt sínum flokki við Radikale Venstre í Danmörku en Elbæk var fulltrúi þess flokks í borgarstjórn Árósa áður en hann varð þingmaður og ráðherra Radikale 2011. Kosningasigur Alternativet var Radikale hins vegar dýr því flokkurinn missti helming af fylgi sínu, um 5 prósent og mældist ögn minni en klofningsframboðið Alternativet. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Danmörku hafa báðir flokkar þá aðeins bætt við sig fylgi frá því í kosningunum í júní síðastliðnum.
Sjá hér.