Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO hefur tekið þátt í evrópska smásagnaverkefninu Transgressions: International Narratives Exchange á þessu ári. Höfundar frá Íslandi, Póllandi, Noregi og Lichtenstein skrifuðu nýjar sögur af þessu tilefni og birtust þær allar á pólsku í safnritinu Transgressje: Antologia, sem kom út í Wrocław fyrr í þessum mánuði.
Íslensku sögurnar og tvær þær pólsku munu einnig birtast á íslensku í Nestisboxinu á vef Bókmenntaborgarinnar fyrir næstu mánaðarmót.
Hápunktur Transgressions hér í Reykjavík fer fram á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg. Þriðjudagskvöldið 28. október kynna íslensku höfundarnir Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Eiríksdóttir og Þórarinn Eldjárn sögur sínar í Iðnó ásamt gestum frá Pólland, þeim Piotr Paziński og Ziemowit Szczerek.