„Núna, þegar þetta er skrifað, er ég enn að bíða eftir að fá þrjá reikninga endurgreidda, sem lagðir voru inn í júní 2018 og bíða afgreiðslu fulltrúa.
Fleiri reikningar liggja fyrir sem verða ekki greiddir af Tryggingastofnun vegna þess að í miðri bið eftir greiðslu varð barnið 18 ára. Samkvæmt reglugerð er ekki hægt að sækja um endurgreiðslu vegna tannréttinga seinna en þremur mánuðum fyrir 18 ára afmælisdag barns, þrátt fyrir að tíminn sem greiða þarf hafi verið löngu fyrir umræddan afmælisdag.
Eins og flestir fæ ég laun sem þurfa að duga út mánuðinn og ef ég þarf að borga af einhverju sem ég fæ ekki endurgreitt fyrr en löngu seinna lendi ég samstundis í undarlegum vítahring. Ég get ekki greitt tannréttingarnar fyrr en ég fæ borgað en fæ ekki borgað fyrr en ég skila inn reikningi. Þetta þýðir að ég náði ekki að greiða alla reikningana fyrir tilsettan tíma og sit því uppi með kostnað sem ég ræð ekki við.
Ég biðla til ráðamanna þjóðarinnar að laga þessa brotalöm og gera betur innan fjölskyldusviðs sýslumanns. Það hlýtur að vera markmiðið að aðstoða og hjálpa fjölskyldum í vanda í stað þess að leggja meiri áhyggjur, vinnu og álag á fólk sem berst í bökkum. Niðurstaða: Kerfið er þannig ekki gagnlegt þeim sem helst þurfa á aðstoðinni að halda.“
Þessi kafli er tekinn úr grein sem Gerða Óskarsdóttir skrifaði og birt er í Mogganum í dag. Dóttir Gerðar þurfti í tannréttingar. Sótt var styrk.
„Það var talsverð vinna að fara í gegnum umsóknarferlið með tilheyrandi pappírum, skattframtali, viðtölum o.fl. Það leið heilt ár þangað til ég fékk niðurstöðu um úrskurð sem var á þá leið að sérstakt framlag vegna tannréttinga barns væri samþykkt, sennilega vegna þess að ég er tekjulág einstæð móðir. Þetta voru, að ég hélt, góðar fréttir en í kjölfarið þurftir ég að skila inn hverjum einasta reikningi frá tannlækni, sem þurfti síðan að fara í gegnum úrskurð, hver um sig.“