Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar eftirfarandi grein:
Ég er mjög ánægð vegna þess að sumt fólk í stjórnmálum tók þá upplýstu prinsip-ákvörðun að hafa ekki samneyti við Piu Kjærsgaard. Ég held að það hafi skipt mjög miklu máli. Ég held að með því að neita að viðurkenna Piu sem handhafa valds og þessvegna manneskju sem eigi tilkall til virðingar, hafi fólk reynt að axla einhverja ábyrgð á því sem á sér stað í veröldinni og jafnframt reynt að gera það sem er ótrúlega mikilvægt:
Að setja atburði í bæði samhengi við það sem á sér stað í samtímanum og það sem hefur átt sér stað í fortíðinni. Það er gott þegar fólk ákveður að hegða sér svoleiðis. Og það er hörmulegt þegar „vinstrið“ yfirgefur alla sína sögulega og mikilvægu skyldu til að annarsvegar gæta að samhengi hlutana (tekur þess í stað að sér hlutverk þeirra sem snúa út úr og láta sem virðing fyrir „samskiptareglum“ sé mikilvægari en pólitísk afstaða) og hinsvegar gæta að alþjóðlegri samstöðu með undirokuðu, jaðarsettu og ofsóttu fólki.
Í kjölfar þessa ömurlega atburðar, að Piu Kjærsgaard, boðbera hinnar skelfilegu og blóðugu evrópsku hefðar sadisma og kúgunnar, var boðið sem heiðursgesti í veislu Alþingis og í kjölfar þess að þingmenn Pírata og Helga Vala ákváðu að hugsanir, tilfinningar og skoðanir, þeirra innra líf (það sem gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum) væri meira virði en samskiptareglur, ætla ég að leyfa mér að nota tækifærið og segja þetta, mér finnst ég einhvernveginn ekki geta sleppt því:
Notum nú tækifærið og horfum í barm okkar eigin ríkisvalds. Notum tækifærið og horfumst í augu við að íslenska ríkisvaldið sýnir grimmd gagnvart því fólki sem hingað kemur í leit að skjóli. Notum tækifærið og horfumst í augu við að íslenska ríksivaldið er rasískt þegar það ákveður hverjir megi setjast hér að og hverjir skuli reknir burt.
Notum tækifærið og viðurkennum samhengi hlutanna; við fordæmum Piu og neitum að virða hana viðlits, vegna þess að við skiljum að normalísering kynþáttahyggjunnar fer fram með ýmsu móti, afþví að við eigum sögulegt minni um innleiðingu og afleiðingar kynþáttahyggju.
Notum einnig tækifærið og spyrjum okkur sjálf: Getum við annarsvegar fordæmt hatur Piu og félaga hennar og hinsvegar samþykkt að taka áfram þátt í því industrial-scale kúgunar og ofbeldisverkefni sem hernaðarbandalagið Nató er? Getum við annars vegar fordæmt Piu sem óvin brúns fólks, þegar okkar eigið ríki, okkar eigið Ísland, er þátttakandi í því að „frelsa“ með skelfilegu ofbeldi brúna alþýðu í fjarlægum löndum?
Við tókum sjálfstæða, upplýsta ákvörðun um að neita að samþykkja samskipti við útsendara hörmunga og haturs.
Getum við ekki líka tekið sjálfstæða, upplýsta ákvörðun um að neita að samþykkja það að við, „herlaus og friðsöm“, séum alltaf með reglulegu millibili þátttakendur í því að búa til heimsendi hjá fólki sem hefur ekki gert okkur neitt, fólki sem hefur verið valið til að þjást á hræðilegan máta, af heimsvaldasjúkum grimmdarseggjum, bandamönnum okkar?
Setjum atburði í samhengi, reynum að skilja bæði orsakir og afleiðingar.
Höfnum reglum sem láta okkur til að umgangast pakk, höfnum reglum sem láta okkur til að viðhafa grimmd og sadisma gagnvart fólki sem hingað kemur í leit að skjóli og höfnum að sama skapi „samskiptareglum“ sem gera okkur að þátttakendum í brútal ofbeldi gangvart almenningi í öðrum löndum. Notum tækifærið og höfnum því sem við vitum að kremur tilfinningar og fólk, kremur mennsku og líf og býr til heimsendi eins og ekkert sé, þegar samskiptareglur kalla eftir því að nú skuli sprengt.