„Við höfum komið okkur upp miklu sjálfskaparvíti með því kerfi sem höfum lagt upp með þarna.“
Snorri Másson.
„Ég er ekki viss um að allir átti sig á því ófremdarástandi sem nú ríkir við landamæri Íslands. Lögreglan starfar þar við svo krefjandi aðstæður að hún telur sig raunverulega ekki geta tryggt raunverulegt öryggi við landamærin. En hvernig má það vera að eyríki með í raun og veru aðeins eina stóra landamærastöð sé ekki fært um að tryggja öryggi við landamærin? Það er ekki vegna náttúrulegra aðstæðna, þær eru góðar. Þetta eru ekki þeim að kenna, heldur okkur sjálfum,“ sagði Snorri Másson Miðflokki á Alþingi.
„Við höfum komið okkur upp miklu sjálfskaparvíti með því kerfi sem höfum lagt upp með þarna. Til dæmis, af mörgum dæmum, látum við svokallaða kærunefnd útlendingamála hafa sérstakt eftirlit með frávísunum lögreglunnar við landamærin, sem engin önnur þjóð gerir.
Hvað þýðir þetta í raunveruleikanum? Jú, þetta þýðir að lögreglan fær til sín farþega, sér strax að þeir uppfylla ekki skilyrðin til að koma inn í landið, hyggjast þá frávísa þeim þegar í stað, en áður en menn vita af eru mættir íslenskir lögmenn sem hugsa sér gott til glóðarinnar,“ sagði Snorri og svo þetta:
„Lögmennirnir maka krókinn.“
„Lögmennirnir troða málum fólksins inn í kæruferli, jafnvel oft þannig að fólkið sjálft fær ekki hugmyndina heldur lögmennirnir. Lögmennirnir góðu eru einfaldlega ólmir að verða að talsmönnum þessa fólks. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það skapar mikla vinnu. Þetta er mikill kostnaður. Lögmennirnir maka krókinn, lögreglan festist í skrifræðiskviksyndi og nú er svo komið að það sífjölgar stöðugildum hinum megin við borðið hjá hinu opinbera við að sinna tilraunum þessara lögmanna. Og þetta er vaxandi vandamál. Íslenska ríkið er sem sagt, ef maður dregur þetta saman, að eyða fúlgum fjár í að berjast við sjálft sig í málum sem ættu ekki, ef allt væri eðlilegt, að komast í kæruferli yfirhöfuð. Niðurstaðan er þessi líka fína peningaþúfa fyrir lögmenn í stað skilvirks kerfis sem tryggir réttaröryggi við landamærin. Þessu verður að breyta.
Ef hæstvirtur dómsmálaráðherra er alvara með að taka til hendinni í þessum málaflokki þá hvet ég hana til að fara að sýna það í verki og hún veit auðvitað af því að við Miðflokksmenn munum styðja hana í góðum málum,“ sagði Snorri Másson.