„Íslenska bankakerfið var glæpavætt við einkavæðingu þess. Heiðarlegt íhaldssamt bankakerfi í ríkiseigu var einkavætt og með einkavæðingu hvarf allt eigið fé úr kerfinu vegna beinna lána og innbyrðis lána til kaupa á hlutafé í bönkunum. Saklaus almenningur vildi eiga örlítið í sínum banka og borgaði með sínum peningum fyrir sitt hlutafé, og lífeyrissjóðirnir, sem eru sameign sjóðfélaga. Þeir, sem höfðu forystu í glæpavæðingunni, lögðu ekkert fram, en uppskáru ríkulega ef þeir komust að kötlunum þar sem kaupaukum var dreift, vegna „frammistöðu“. Frammistaðan var aldrei annað en sjónhverfing.“
Það er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, sem skrifar þetta í langri Moggagrein í dag.
„Eftirlitsaðilar hluthafa, endurskoðunarfyrirtæki, greiddu kröfuhöfum bætur, „án þess að viðurkenna sök“, en skjólstæðingar endurskoðunarfyrirtækjanna, hluthafar, hafa engar bætur fengið frá þeim.
Í hinum þremur stóru og kerfislæga mikilvægu bönkum hefur verið dæmt í málum, sem varða markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í bönkunum. Í einu máli var þó ekki dæmt, þar sem lá fyrir játning stjórnarmanna í Glitni um markaðsmisnotkun þegar hlutabréf í bankanum voru keypt af fráfarandi forstjóra á yfirverði. Í héraðsdómi segir:
„Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu stefndu, að ef stjórnin hefði ekki gengið að kaupum á hlut Bjarna á yfirgengi þá hefði hann sett bréfin í sölumeðferð sem hefði leitt til offramboðs bréfa með þeim afleiðingum að gengi bréfanna hefði lækkað. Að mati dómsins er hér um hreinar getgátur að ræða og ekki trúverðugar. Engin rök eru fyrir þessari málsástæðu og er hún haldlaus.“
Réttlæting fyrir kaupunum var að koma í veg fyrir að hlutabréf í Glitni færu á markað og yllu offramboði! Það er skýr markaðsmisnotkun.
Í viðskiptum með stofnfjárskírteini í sparisjóðum var því á annan veg farið. Þar dugði stjórnarmönnum að lýsa heimsku sinni og vanþekkingu til að fá sýknu í málum þar sem markaðsmisnotkun var augljós. Sennilega hófst glæpavæðing í sparisjóðunum fyrr en bönkum. Hana má rekja allt til ársins 1996.“