Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir:
Refsiaðgerðir Íslands gagnvart Rússlandi standast því ekki skoðun því stuðningur okkar við Úkraínu er óneitanlega litaður af efnahagslegum hagsmunum íslenskra útgerðarkónga. Því ekki má útgerðinni blæða – meðan öðrum blæðir út.
Stjórnmál
Blaðamaður Heimildarinnar Heimildin Aðalsteinn Kjartansson spurði Zelensky í dag í heimsókn hans til Íslands hvort honum væri kunnugt um að íslenskur fiskur þrátt fyrir viðskiptabann við Rússa væri endurpakkaður í Hvíta-Rússlandi, og svo seldur til Rússlands. Zelensky sagðist ekkert vita um málið og forsætisráðherra stóð lúpulegur hjá.
Ósamræmi
Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir stuðningi við refsiaðgerðir gegn rússneskum bönkum, sett á ferðatakmarkanir og sérvalin útflutningsbönn sem sýna eiga samstöðu með vestrænum bandamönnum í fordæmingu á aðgerðum Rússlands í Úkraínu. Undanþága íslenskra sjávarafurða frá þessum refsiaðgerðum er hinsvegar mótsagnakennd því íslenskir fiskútflytjendur njóta áfram efnahagslegs ávinnings af viðskiptum við Rússland þar sem Rússar fá íslenskan fisk eins og þeim lystir í soðið.
Refsiaðgerðir Íslands gagnvart Rússlandi standast því ekki skoðun því stuðningur okkar við Úkraínu er óneitanlega litaður af efnahagslegum hagsmunum íslenskra útgerðarkónga. Því ekki má útgerðinni blæða – meðan öðrum blæðir út.
Skortur á heilindum við Úkraínu
Heilindi Íslenskra stjórnvalda gagnvart Úkraínu eru í besta falli leiktjöld og rekast á við hagsmuni annarra bandamanna Úkraínu sem viðhalda fullu viðskiptabanni við Rússland. Heilindi Íslendinga í garð Úkraínu liggja fyrir. Við þurfum annað fólk í brúnna!
Hagsmunir sjávarútvegsins ofar siðferði
Undanþága íslenskra stjórnvalda frá refsiaðgerðum á sjávarafurðir setur efnahagslegan ávinning framar siðferði. Þar afhjúpast ístöðuleysi okkar og tækifærismennska hvað varðar aðgerðir gegn framgangi Rússa í Úkraínu. ESB hefur lagt á enn víðtækari refsiaðgerðir, þar á meðal bann við útflutningi á fiski og sjávarafurðum til Rússlands. Með hverjum erum við í liði eiginlega?
Milliliðir klæða íslenskan fisk í nýjan búning
Íslenskur fiskur kemst óbeint inn á rússneska markaðinn, endurpakkaður af fyrirtækjum Aleksander Moshensky í Hvíta-Rússlandi eða Litháen. Hinn hvítrússneska vildarvin utanríkisráðherra og fiskkaupanda þarf vart að kynna. Hann nýtur velþóknunar íslenkra stjórnvalda sem eru undir hælnum á aðalleikurum í íslenskum sjávarútvegi og gera bara það sem þeim er sagt að gera.
Þessi sniðuga blekkingaraðferð (sem yfirleitt er útskýrð með þeim hætti að endurpakka þurfi til að gera pakkningar aðgengilegar framandi kaupendum) gerir íslenskum söluaðilum kleift að komast á markað í Rússlandi án beinnar tengingar við Ísland. Þetta vekur að sjálfsögðu upp spurningar um hvort íslenska afstaðan samræmist yfirlýstum stuðningi okkar við Úkraínu.
Út í þetta spurði Aðalsteinn, blaðamaður Heimildarinnar, Zelensky í dag og NB eini blaðamaðurinn sem þorði það – því Zelenski þarf að vita þetta.
Ísland með ESB og NATO – en bara þegar það hentar
Hentistefna Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússlandi er á skjön við fulla viðskiptabannsafstöðu ESB. Þó Ísland sé ekki í ESB fylgir það oft stefnum ESB í gegnum EES, en lítur bara undan eins og ekkert sé þegar hagsmunir íslenskra útgerðarkónga eru annars vegar.