Stjórnmál

Íslensk stjórnvöld eru í augum internetsins vandræðalega vanhæf og spillt

By Miðjan

November 17, 2022

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði á Alþingi fyrr í dag:

„Að eiga fjármálaráðherra og forsætisráðherra sem virðast raunverulega að halda að þau komist upp með að kasta fram upplýsingaóreiðu varðandi lögbundnar skyldur og ábyrgð á tímum internetsins er vandræðalegt á „boomer“-skala, en alls ekki ófyrirséð af yfirvöldum sem fela lögreglunni fremur að rannsaka þau sem segja frá en þau sem fremja glæpi, samanber Samherjamálið sem Drago Kos, formaður vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum, kallaði nánast vandræðalegt. Íslensk stjórnvöld eru í augum internetsins vandræðalega vanhæf og spillt. Hvernig væri ef við myndum laga það?“

Fyrr sagði hún: „Síðustu tveir dagar á þingi hafa verið svolítið vandræðalegir, að fylgjast með forsætisráðherra þykjast skilja kröfu um frekari rannsókn á þætti fjármálaráðherra í sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka sem gagnrýni á vinnubrögð ríkisendurskoðanda, verja hann í kjölfarið og klykkja svo út með því að segja að fjármálaráðherra hafi fyrstur kallað eftir skýrslu ríkisendurskoðanda og með því tekið ábyrgð á sínum hlut. Skýrsla ríkisendurskoðanda staðfestir alls kyns annmarka á bankasölunni og vandamál sem við hér á þingi höfum haft áhyggjur af allt frá því að söluferlið var fyrst kynnt. Upplýsingaleki, list en ekki vísindi, að kunna ekki að leggja saman í excel, armslengd, pabbi mátti kaupa og þar fram eftir götunum. Í hverju einasta skrefi frá upphafi spurðum við, almenningur og minni hluti þings, spurninga sem ekki var svarað og hefur enn ekki verið svarað en nú er salan um garð gengin og fyrsta úttektarskýrslan komin. Ég leyfi mér af því tilefni að vitna í yfirlýsingu Íslandsdeildar Transparency International þar sem bent er á að vel sé þekkt víða um lönd að ríkisstjórnum sé tamt með aðstoð spunameistara að klæða sérhagsmuni í búning almannahagsmuna, lögmætis og hlutleysis í þeim tilgangi að ná sátt um umdeildar ákvarðanir, sneiða hjá mótmælum og varðveita traust.“