- Advertisement -

Íslensk stjórnmál eru í ruslflokki

„…en verður hins vegar vitni af spillingu stjórnmálanna.“

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Traust almennings á Alþingi og borgarstjórn er komið undir traust fólks á bankakerfinu. Sem er afæta á samfélaginu, blóðsuga. Alþingi og borgarstjórn á að vera lýðræðisvettvangur fjöldans til að lagfæra óréttlæti samfélagsins, sameiginlegir vettvangur okkar. Okkar svæði.

Íslendingar upplifa hins vegar ekki þing og borgarstjórn sem lausnina heldur sem hluta af vandanum, kannski þann alvarlegasta. Og þetta er lærð afstaða, byggð á reynslu. Landsmenn upplifa að þing og borgarstjórn þjóni ekki hagsmunum almennings. Fyrir kosningar er mörgu lofað en eftir kosningar ekki staðið við neitt. Og það er eins og fólkið skammist sín ekki. Hagsmunir hinna fáu eru ætíð teknir fram yfir almannahag. Ef þingmenn og borgarfulltrúar eru ekki að þjóna hinum fáum eru þeir uppteknir af sjálfum sér og hvor öðrum.

„…og því miður, Íslandi – að þar er stjórnmálafólkið uppfullt af dálæti á sjálfum sér.“

Fallandi traust á lýðræðisstofnunum er eitt af sjúkdómseinkennum nýfrjálshyggjutímans; fólk upplifir síður sameiginleg markmið samfélagsins en verður hins vegar vitni af spillingu stjórnmálanna og hvernig þau þjóna fyrst og fremst hinum fáu. Traust á þingi hefur víðast fallið með minnkandi tiltrú á stjórnvöldum. En fáar þjóðir hafa misst jafn algjörlega trú á stjórnmálafólkinu og Íslendingar.

Á Norðurlöndunum ber fólk mikið traust til þjóðþinganna; Svíþjóð 64%, Noregur 62%, Finnland 56%. Könnun Gallup nú sýnir að 18% Íslendinga treysti þinginu en enn færri borgarstjórn. Traust er minna á meginlandinu; 35% Frakka, Spánverja og Hollendinga treysta sínum þingum, 36% Breta og 42% Þjóðverja. Mest fyrirlitna þing í okkar heimshluta, hið gerspillta Bandaríkjaþing nýtur samt 19% trausts.

Ísland er á slóðum Úkraínu (20%), Líbýu (17%), Ungverjalands (17%) og Póllands (13%). Þetta eru lönd með hrunin stjórnmálakerfi, lönd sem eru í upplausn og átökum, þar sem lýðræðið stendur veikum fótum og er í hættu.

Einhver gæti haldið að það væri skrítið að ráðherrar og stjórnmálafólk á Íslandi töluðu af hroka og yfirlæti standandi svona veikt. En það er ekkert skrítið. Stjórnmálafólk í löndum þar sem fólk ber traust til þjóðþinga talar af hógværð og virðingu til almennings. Það er þvert á móti reglan að þar sem stjórnmálafólkið hefur misst traust almennings, í löndum eins og Úkraínu, Póllandi, Ungverjalandi – og því miður, Íslandi – að þar er stjórnmálafólkið uppfullt af dálæti á sjálfum sér.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: