Leiðari Davíðs að þessu sinni fjallar um útlendingamál. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félagsmálaráðherra, sækir ekki vinsældir eða viðurkenningar í Hádegismóa. Fjarri því. Mestur hluti leiðarans er tilgangslaust snakk. Hér er lokakaflinn:
„Íslendingar geta ekki forðast umræðu um útlendingamál lengur og vonað að þetta reddist. Þess er enginn kostur eins og sjá má af því að nú ausa bæði dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra bátinn, annar út fyrir en hinn inn fyrir! Þolinmæði almennings gagnvart slíku rugli ofan á annað er á þrotum.“
Þarna gætir misskilnings. Umræður um útlendingamál eru daglegt brauð. Það er annað að sitt sýnist hverjum.
Hér á eftir fer næst síðasti kafli leiðarans. Þar fjallar ritstjórinn um mismunun:
„Við höfum vanrækt að læra af reynslu nágranna okkar þó um margt sé vandinn hinn sami og vaxandi. Sér í lagi þegar ætluð mismunun heima fyrir er í raun orðin grundvöllur hælisveitingar, ekki ofsóknir og bráð hætta. Í því samhengi er hollt að muna að samkvæmt alþjóðlegum mælistikum er ekkert ríki heims fyllilega laust við mismunun af öllu tagi. Ekki Ísland heldur.“
Mikið rétt. Hér er mikil mismunun. Hún er af mannavöldum. Ekki síst ríkisvaldsins. Fjölmörg dæmi eru til um þetta. Það þarf varla að nefna öryrkja, fátækt eldra fólk, börn sem ekki geta tekið þátt í félagslífi sökum fátæktar. Þessi listi er mun lengri. Stjórnvöld vilja ekki leysa þessi vandamál. Mismunun virðist vera kappsmál þeirra sem skipa stjórnarráðið.
-sme