Mannlíf

Íslensk ljóð á vegg í Kraká

By Sigrún Erna Geirsdóttir

October 14, 2014

Ljóðum eftir Gerði Kristnýju, Ingibjörgu Haraldsdóttur og Einar Má Guðmundsson er nú varpað á vegg við aðaltorgið í Kraká í Póllandi og er það hluti af verkefni sem borgin stendur fyrir sem ein af sjö Bókmenntaborgum UNESCO. Hægt er að lesa brot úr einu ljóði á dag í fyrstu viku hvers mánaðar eftir skáld frá þessum sjö borgum.

Ljóðunum er varpað á byggingu á horni Bracka strætis og aðaltorgsins Rynek, eða markaðstorgsins eins og það er oft nefnt á íslensku. Ljóðabrotin eru birt á ensku og pólsku.Verkefnið hófst þann 1. ágúst og var ljóðið Nótt eftir Gerði Kristnýju fyrsta ljóðið frá Reykjavík. Broti úr því var varpað upp þriðjudaginn 5. ágúst. Í september gátu vegfarendur lesið brot úr ljóðinu Svar eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur og nú í október var ljóð Einars Más Guðmundssonar, Ræðupúlt örlaganna, á ljóðaveggnum.

Sjá nánar af vef Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur.