Íslensk geðþóttastjórnmál
Björn Leví Gunnarsson skrifar í Moggann um geðþóttastjórnmál. Hann nefnir nokkur dæmi:
„Geðþóttastjórnmálin eru mjög góð í því að þykjast vera fagleg. Það gera þau til dæmis með því að gera yfirborðskenndar greiningar með fyrirfram gefinni niðurstöðu. Það eru pöntuð lögfræðiálit sem útiloka betri lausnir, gert lítið úr öðrum hugmyndum eða einfaldlega fullyrt að geðþóttalausnin sér best og eftiráskýringar búnar til eftir þörfum.
Nýleg dæmi um geðþóttastjórnmál er til dæmis Landsréttarmálið, þar sem það er vel skjalfest að geðþótti dómsmálaráðherra réð niðurstöðunni þrátt fyrir ráðleggingar um annað. Annað dæmi eru niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar. Sú ákvörðun var tekin áður en búið var að ákveða hvað eða hvort eitthvað annað þyrfti að koma í staðinn. Það eru fjölmörg önnur dæmi um geðþóttastjórnmál á undanförnum árum, eins og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er til dæmis skýr vitnisburður um – þar eru engar kostnaðar- og ábatagreiningar eins og kom skýrt í ljós í síðustu viku þegar forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sagði það hreint og beint að þau hefðu ekki hugmynd um hvort 700 þúsund krónur á dag fyrir stofulækni væri réttur kostnaður eða ekki.
Við eigum að krefjast þess að stjórnmálin geri betur. Að þau séu innihaldsrík og fagleg en ekki yfirborðskennd og ráðist af hugmyndafræðilegum geðþótta. Í dag ræður hins vegar geðþóttinn og því vilja Píratar breyta af því að við eigum öll skilið að stjórnvöld geri sitt besta.“