Höfundur: Óskar Clausen
Að morgni föstudagsins 11. febrúar 1859 reru sex hákarlaskip úr veiðistöðvunum Sandi, Keflavík og Rifi undir Jökli. Það var einmuna gott veður að morgni þessa þorradags, blæjalogn og heiðskír himinn, en þegar leið á daginn, spilltist veðrið og gerði hið afskaplegasta sunnanveður ofan af jöklinum, reglulegt Jökulveður. Suðurloftið fór að hranna og það hvessti jafnt og þétt, — hann fór að ganga upp á jökulinn og mikil kólga var komin um Hreggnasa. Loks urðu öll fjöll hulin myrkri og veðurofsinn kominn í algleyming.
Þegar svona var komið, fóru tvö skipanna þegar að sigla upp og náðu lendingu um kvöldið, en fjögur skip lágu eftir, enda nægur hákarl fyrir og að venju þraukað við vaðinn eins lengi og fært þótti og skipin gátu varizt sjóum. Svo leið nóttin óendanlega löng og köld. Daginn eftir lentu svo önnur tvö skipanna við illan leik eftir mikinn barning og sjóvolk um nóttina, því að veðrið hafði verið afskaplegt og ekki batnaði það daginn eftir. Það var stanzlaus hríð og sorti svo mikill, að varla sá út yfir borðstokkinn og svo rokið eftir því og sjógangurinn.
Tvö skipanna voru ekki lent á laugardagskvöldið og voru þau því talin af, en þau lentu í miklum hrakningum, eins og nú skal sagt frá. Annað hrakti yfir þveran Breiðaflóa vestur á Barðaströnd og lenti þar heilu og höldnu, en hitt sigldi inn flóann og náði lendingu í Rauðseyjum undir Skarðsströnd og komst síðan eftir 5 sólarhringa útivist aftur til lands. Af skipinu, sem hrakti vestur yfir flóann, verður ekki sagt hér, en á því skipinu, sem hrakti inn flóann, og lenti í Rauðseyjum, var Gísli Gunnarsson formaður, en hann var einhver úrræðabezti og dugmesti sjóferðamaður við Breiðafjörð á sínum tíma. Gísli var ættaður úr Bjarneyjum, en hafði í uppvexti sínum verið í Rauðseyjum og vanizt þar sjóferðum og volki. Hann var því kunnugur lendingunum á þessum stöðum. Hann var merkilegur maður, forspár og vitur, en varð ekki langs aldurs auðið. Hann fórst í hákarlalegu sjö árum síðar frá Bryggju í Grundarfirði. Af honum eru merkir menn komnir. — Frá þessari siglingu Gísla inn Breiðafjörð í myrkri og ofsaveðri skal nú sagt.
Þegar veðrið var hatramast aðfaranótt laugardagsins og þann dag, lá skipið fyrir akkeri, en hrakti eigi að síður út á miðjan fjörð svo utarlega, að komið var móts við Öndverðarnes, m. ö. o. það var nærri komið út úr firðinum og út á Grænlandshaf. Svo slotaði veðrinu lítið eitt og gekk í áttina til vesturs. Gísli, sem var bæði forspár og veðurglöggur, sá nú eða fann á sér veðurbreytinguna og sagði því við háseta sína um leið og stjórinn var dreginn: „Nú siglum við á Látrabjarg, en í fyrramálið lendum við í Rauðseyjum.“ — Þetta þótti þeim að vísu kynlegt en treystu Gísla, sem vissi vel hvað hann fór. Hann þurfti að taka bóg lengra vestur í flóann til þess að hafa hann opinn og hreina leið, þegar áttin væri orðin svo vestlæg, að ljúf sigling væri inn flóann. — Þetta gekk allt eftir og aðfaranótt sunnudagsins, litlu eftir dægramótin, tókst honum að lenda í Rauðseyjum, án þess að nokkuð yrði að skipi eða mönnum og þótti þetta frækileg ferð og var góðri stjórn Gísla á skipinu um nóttina viðbrugðið.
Það var nú heldur ekki í kot vísað að taka lendingu í Rauðseyjum. Þar bjó þá höfðingi mikill, Sturlaugur Einarsson, mesta göfugmenni, ríkur maður og góðgjarn. Hann var sonur Einars Ólafssonar í Rauðseyjum, sem kallaður var ,,hinn ríki“, en faðir Guðbrandar í Hvítadal föður Helgu móður Haraldar Böðvarssonar útgerðarmanns á Akranesi og hans systkina. Ber Sturlaugur sonur Haraldar nafn þessa merka manns. — Þeir Rauðseyjafeðgar, Einar og Sturlaugur, bjuggu um hálfa öld hver eftir annan, leiguliðar í Rauðseyjum, því að eyjarnar eru hluti af hinni miklu jarðeign Skarði á Skarðsströnd. Þó voru þessir menn stórríkir og áttu fjölda jarða við innanverðan Breiðafjörð, en það var útræðið og sjávaraflinn, sem hélt þeim í eyjunum. Þeir áttu mörg skip og báta, sem gengu til fiskjar ýmist heiman að, úr Bjarneyjum eða undan jökli og græddist þeim fé á þessari útgerð, en fyrir gróðann keyptu þeir svo jarðir, stundum á hverju ári, þegar vel aflaðist.
Það var mikil vinátta milli Skarðsmanna og Rauðseyinga. Höfðingjarnir á Skarði litu á landseta sína í Rauðseyjum sem fullkomna jafningja sína. Á skipi Gísla Gunnarssonar voru 13 manns, þegar það lenti þennan dimma vetrarmorgun í vogum niður undan bænum í Rauðseyjum. Húsbóndinn í eyjunum, Sturlaugur Einarsson, var maður þrekinn og föngulegur, orðinn 61 árs gamall, alvarlegur og kjarklegur, enda margreyndur formaður, sem ekki æðraðist eða varð uppnuminn, þótt inn gæfi á bátinn. Hann bjó með ráðskonu og hafði 4 vinnumenn og jafnmargar vinnukonur, og alls voru þar 13 í heimili, en þó að þarna væri nú svona margt þjónustufólk, þá var samt helmingi meira á Skarði þetta árið. Þar voru átta vinnukonur og sjö vinnumenn.
Sturlaugur tók nú á móti þessum sjóhröktu mönnum með einstökum myndarskap og gestrisni og segir í þakkarávarpi, sem Gísli Gunnarsson sendi honum, að hann hafi tekið á móti þeim, eins og þeir hefðu verið einkasynir hans og hann hefði heimt þá úr helju. Þeir voru allir færðir i hrein og þurr föt og látnir hátta ofan í beztu uppbúin rúm. Svo var þeim veitt allt til hressingar, „sem bezt þótti við eiga“ …. í Rauðseyjum voru þeir veðurtepptir í 4 sólarhringa og ekki var við það komandi, að Sturlaugur tæki nokkurt gjald af þeim fyrir allan þennan góða greiða. Hann skildi heldur ekki við þá með neinum kauðahætti, því að lokum gaf hann þeim öllum nesti, sem nægt hefði til 14 daga ferðar.
Um morguninn, þegar þeir lögðu af stað úr Rauðseyjum, fylgdi Sturlaugur þeim til sjávar og óskaði þeim að lokum alls velfarnaðar með mestu hlýju og innileik, en að lokum bað þessi eyjahöfðingi fyrir þeim í lendingunni af mikilli einlægni. Það hefur eflaust verið hátíðleg alvörustund, þegar þessir veðurbitnu og hröktu sjómenn tóku ofan höfuðföt sín, hneigðu höfuðin og hlustuðu hljóðir á fyrirbænir Sturlaugs. Loks hefur formaðurinn, Gísli Gunnarsson, lesið hina venjulegu sjóferðabæn, þegar allir voru seztir undir árar, og að því loknu hafa þeir damlað út voginn, en heimilisfólkið í Rauðseyjum staðið hljótt eftir í lendingunni, þangað til skipið var horfið úr úr voginum. Þetta var venja í eyjunum. Um kvöldið lentu þeir svo á Sandi, eftir að hafa siglt 14 vikna leið í bezta leiði og urðu þar miklir fagnaðarfundir, því að allir voru þeir taldir af. Hrakningsmennirnir sendu Sturlaugi í Rauðseyjum kveðju í Þjóðólfi, þar sem þeir votta „innilegasta þakklæti hinum veglynda höfðingja“, en það er nú einmitt þessi verðuga þakklátssemi, sem hefur geymt frásögnina um þetta atvik og gert mér kleift að minnast þess hér.
Ég hef nú lokið frásögn minni um hrakninga Gísla Gunnarssonar, og móttökur þær, sem hann fékk í Rauðseyjum veturinn 1859, en nú skal sagt frá atviki, sem kom fyrir í Rauðseyjum 32 árum síðar. Þá voru komnir þar aðrir húsbændur — arftakar Sturlaugs, en þá þurfti Rauðseyjarheimilið á skjótri og mikilli hjálp að halda.
Það var veturinn 1891, að bærinn í Rauðseyjum brann til ösku á örskammri stundu, en þá var Jón Jónsson orðinn bóndi í eyjunum. Hann hafði alizt upp hjá Sturlaugi og tekið við eyjunum eftir hann. Jón var ættaður úr Barðastrandarsýslu og var nú orðinn rúmlega fimmtugur, — hafði búið í Rauðseyjum á þriðja tug ára og var efnaður maður, en þótti líka fyrirtaks maður að dugnaði og drengskap. Fyrri kona Jóns var Helga dóttir Gísla Gunnarssonar, sægarpsins sem fyrr getur, en hún var nú dáin og Jón giftur í annað sinn, Önnu Kristínu Brynjólfsdóttur, ættaðri úr Bjarneyjum, og var hún rúmum 20 árum yngri en hann.
í Rauðseyjum var enn mannmargt í heimili hjá Jóni bónda, enda mikil umsvif og margþættur búskapur í eyjunum sem fyrr. Þar voru þrjár vinnukonur, tveir vinnumenn, tvö tökubörn og tveir ómagar. Annar þeirra var mállaus maður, sem Kristján hét Guðmundsson, 46 ára gamall, og kemur hann hér við sögu, og svo gamla konan, sem brann inni. Alls munu hafa verið þar þrettán manns í heimili. Jón bóndi hafði reist í Rauðseyjum einhvern vandaðasta og reisulegasta bæ, sem þá var til á Breiðafirði voru 3 stafnþil á bæjarhúsinu 1 álna löng, en 6-7 álnir á breidd. Alþiljaður var bærinn uppi og niðri, og framþil allt úr timbri. 18 hurðir voru þar á járnum. Þetta byggingarlag bæjarhúsa var algengt á stórjörðum á Breiðafirði fyrir 80—100 árum. Baðstofuhúsið í Rauðseyjabænum var hólfað í þrennt, sín stofan í hvorum enda, en í miðherberginu, sem var vinnustofa fólksins, var eldavél, sem jafnframt var höfð til þess að hita upp niðri. Á bænum var kvistur og var þar svefnherbergi hjónanna, en þar var húsbóndinn oftast að kvöldinu, þegar hann var hættur smíðum.
Það var rétt fyrir háttatíma 6. marz 1891, að kviknaði í eldivið, sem hrúgað hafði verið við þilið hjá eldavélinni og var þetta skraufþurrt afhögg af bátavið, sem borið hafði verið inn frá húsbóndanum, sem verið hafði að smíða bát. Jón var ágætur bátasmiður og stundaði þær smíðar að vetrinum, eins og venja var til í eyjunum. Það tókst að slökkva þennan eld í spýtunum, svo að menn þóttust vissir um, að ugglaust væri, en svo var því miður ekki og urðu þarna upptök þessa mikla bruna. Húsbóndinn var dulinn þessa atviks, en hann svaf eins og áður í kvistherbergi út úr baðstofuloftinu. Snemma nætur vaknaði hann svo við það, að einhver heimilismannanna kallaði við kvistþilið, að bærinn stæði í ljósum loga, enda var þá farið að snarka og bresta í kvistloftinu.
Eins og áður getur var mállaus maður, Kristján, á heimilinu og varð hann fyrst var við eldinn. Hann rak upp ógurlegt öskur, því að hann gat öskrað en ekki talað. Hann var heyrnarlaus og hafði því ekki lært að tala. Kristján brauzt allsnakinn ofan loftsgatið og út um norðurdyr bæjarins, en hafði vafið utan um sig rúmábreiðu. Hann skildi allar dyr eftir opnar og magnaðist eldurinn mikið við það, því að veður var hvasst á norðan með fjúki og 11—12 stiga frosti. Strokan stóð því inn um dyrnar og æstist eldurinn svo á svipstundu, að hvert herbergi varð alelda. Annar vinnumannanna hafði verið að flétta reipi í baðstofunni um kvöldið og lauk því rétt fyrir háttatíma. Skrapp hann þá upp á loftið til húsbóndans til þess að sýna honum handbragð sitt og fá dóm hans á það. Jón bóndi hafði lært vandvirkni í æsku hjá Sturlaugi fóstra sínum og var því verkvandur og leið enga hroðvirkni eða vinnusvik. Af einhverri tilviljun gleymdi vinnumaður nýja reipinu uppi á kvistinum hjá Jóni bónda, en það varð einmitt þetta reipi, sem bjargaði lífi og limum Jóns. Þegar eldurinn var kominn í algleyming að kvistherberginu á alla vegu, fleygði Jón því sem hann gat út um gluggann, þ. á m. rúmfötum úr tveim rúmum, sem þarna voru, og fór svo sjálfur á eftir, en hafði handfestu á reipinu. Þannig komst hann út án þess að limlestast, sem hætta var á, ef reipið hefði ekki verið til staðar.
Kvenfólkið, sem var í baðstofunni, flýði nakið út um gluggana og komst í fjósið og lét þar fyrirberast. Þegar Jón bóndi var kominn út úr eldinum, gerði hann tilraun til þess að bjarga einhverju úr stofunni niðri. Hann braut stofugluggana og náði þar með mestu herkjum, einhverjum smáhirzlum og 3 stólum, en þá var eldurinn orðinn svo ægilegur, að engri frekari björgun varð við komið. Náttmyrkur var svart og mikill bylur og reykjarsvæla, svo að ekkert varð við neitt ráðið og brann sumt af því litla, sem út var fleygt.
Þegar klukkan var orðin eitt um nóttina, var allur bærinn fallinn og orðinn að öskuhrúgu. Öll matvæli höfðu brunnið inni, fatnaður og áhöld. Fólkið klæðlaust og allslaust, hafði flúið í fjósið og lét þar fyrirberast, en því miður kom nú í ljós, að tveir höfðu farizt í brunanum og brunnið upp til agna. Það var gömul kona, 75 ára að aldri, farlama, sem Þorbjörg hét Jónsdóttir og telpa, tökubarn 5 ára gömul og hét Helga Þórdís og bar nafn heimasætunnar í Rauðseyjum. Rúm gömlu konunnar var í baðstofuloftinu beint fyrir ofan eldavélina, þar sem upptök eldsins voru, og er búizt við, að það hafi hrapað ofan í bálið, þar sem eldurinn náði fyrst að vinna á. En telpan svaf hjá einni vinnukonunni og varð eftir í rúminu, þegar óttinn greip alla og augnablik lífshættunnar gerði hvern mann sjálfum sér næstan. Það hefur eflaust verið ömurleg vist í fjósinu þessa nótt, þó að þar væri ekki kalt, en fólkið var nakið og hrjáð, þó að enginn yrði fyrir brunasárum. Bylur og veðurofsi með hörku frosti hélzt í 2 dægur, en á 3. dægri slotaði og var þá sett upp flagg eða neyðarmerki til næstu byggðra eyja, Rúgeyja, en þangað er vika sjávar. Annars eru 2 vikur sjávar úr Rauðseyjum til lands, þar sem skemmst er upp að Melum á Skarðsströnd. Í Rúgeyjum bjó þá Magnús sonur Gísla Gunnarssonar og mágur Jóns í Rauðseyjum glæsilegur dugnaðarmaður og bezti drengur. Hann fór til Vesturheims árið eftir.
Magnús í Rúgeyjum var maður snar og viðbragðsskjótur til hjálpar eins og hann átti kyn til. Hann var ekki með neinar vangaveltur þegar hann sá, hvernig komið var í Rauðseyjum, en mannaði þegar út skip sitt og fór þangað, tók helming fólksins og flutti heim í Rúgeyjar, en fór svo að vörmu spori aðra ferð til Rauðseyjar með nauðsynlegustu matvæli, áhöld og fatnað handa fólkinu. Auðvitað höfðu Rauðseyingar ekki haft annað að nærast á þessi 3 dægur en mjólkina úr kúnum, en þær höfðu verið færðar í heyhlöðuna, sem búið var að gefa úr.
Þegar svo gaf vestur í Flatey, fór Magnús í Rúgeyjum þangað og sagði þessi tíðindi, en þá brugðu Flateyingar vel við til hjálpar að vanda og skutu saman handa Rauðseyingum. Jón bóndi segir í bréfi til Péturs Eggerz, að þar hafi „ríkir og fátækir, búandi og búlausir“ látið í té svo mikla hjálp, að allnóg var á fimm manna far af alls konar íverufötum, hirzlum, ílátum og matvælum. Eins og geta má nærri kom þessi hjálp sér vel og bætti úr brýnustu þörfinni, en skaði Jóns bónda var gífurlegur, því að allt var óvátryggt, bæði bærinn og innanstokksmunirnir. Um Jón í Rauðseyjum er sagt, að honum hafi verið viðbrugðið fyrir hjálpfýsi og ósérplægni, en þarna missti hann megnið af aleigu sinni, samandregið með súrum sveita í 20 til 30 ára búskap, enda varð honum þetta áfall svo mikill fjárhagslegur hnekkir, að hann náði sér aldrei efnalega eftir þetta og nokkrum árum síðar fór hann til Vesturheims, ásamt konu og börnum.