Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra syndir á móti straumnum með þann vilja sinn að setja veggjöld, eða vegaskatta.
MMR gerði könnun um vilja fólks og fljótt frá sagt er mikil andstaða við vilja ráðherrans og fyrirætlan.
Í frétt MMR segir: „Töluverð andstaða reyndist gegn innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 13. til 19. apríl 2018. Alls sögðust 50% svarenda andvígir innheimtu slíkra gjalda en 31,4% hlynntir henni. Stuðningur við innheimtu veggjalda hefur þó aukist lítillega (um 6 prósentustig) á milli ára en 25,4% svarenda kváðust hlynntir slíkri gjaldtöku í könnun MMR frá apríl 2017. Hlutfall andvígra hefur að sama skapi minnkað um tæp 6 prósentustig á milli ára.
Lítill munur var á afstöðu eftir kyni og búsetu svarenda. Andstaða við innheimtu veggjalda var minnst á meðal svarenda á aldrinum 18-29 ára (41%) en þeir lýstu einnig í mestum mæli yfir stuðningi við slíka innheimtu (36%). Mest var andstaðan á meðal svarenda á aldrinum 30-49 ára (56%) og 50-67 ára (51%). Stuðningur við innheimtu veggjalda jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum.
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkra skiptingu á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Miðflokks (63%), Flokks fólksins (63%) og Pírata (60%) kváðu mesta andstöðu gegn innheimtu veggjalda en alls sögðust rúm 52% stuðningsfólks Flokks fólksins mjög andvíg slíkum gjöldum. Mestan stuðning við innheimtu veggjalda var að finna á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (47%) og Sjálfstæðisflokks (45%).“