- Advertisement -

Íslendingar minna menntaðir en aðrir

„Við verðum að horfa á þá stöðu að fyrir tíu árum voru rúmlega 12.000 sem tóku námslán en þeir voru einungis 5.000 í fyrra. Hvað veldur þessu?“

„Aðsókn ungs fólks í framhaldsnám er mun minni á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í nýútgefinni skýrslu um virði menntunar kemur fram að 38% ungs fólks hér á landi á aldrinum 25–34 ára hefur sótt sér háskólamenntun samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð. Þá skerum við okkur úr þegar kemur að þeim sem eingöngu hafa grunnskólapróf en þann hóp fylla nærri 25% landsmanna 25–64 ára,“ sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi,

„Þetta hlýtur hæstvirtum ráðherra eins og okkur öllum að þykja sérstakt áhyggjuefni, enda höfum við til þessa dags flíkað því að vera vel menntuð þjóð og að þar liggi auður okkar og hagsæld til framtíðar. Það hversu fáir útskrifast er verulegt áhyggjuefni og þá er ekki úr vegi að nefna kynjamuninn sem er sá þriðji mesti innan OECD-ríkja og um tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum, körlum í óhag sem eru einungis 30% útskrifaðra. Slíkt ójafnvægi hefur sýnt sig að getur haft veruleg neikvæð áhrif félagslega til framtíðar.

Því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra annars vegar út í hennar áætlanir hvað þetta varðar sem og menntunarstig þjóðarinnar almennt. Hvernig sér hún fyrir sér að snúa við þessari óheillaþróun? Hvað telur hún að valdi því að við erum svona langt á eftir? Hefur það eitthvað með samfélagið að gera, viðhorf til menntunar eða áhrif menntunar á launakjör svo dæmi sé tekið? Eða getur þetta haft eitthvað með aðbúnað og kjör stúdenta að gera?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kerfinu var gjörbylt hér í sátt á Alþingi…

„Þessa þróun þarf einfaldlega að stöðva, ekki síst þegar kemur t.d. að heilbrigðis- og menntavísindum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdottir ráðherra háskóla.

„Við verðum að horfa á þá stöðu að fyrir tíu árum voru rúmlega 12.000 sem tóku námslán en þeir voru einungis 5.000 í fyrra. Hvað veldur þessu? Það hlýtur að vera eitthvað að kerfi sem fækkar svona rosalega þeim sem sækja stuðning inn í kerfið. Þeim hefur fjölgað verulega, og það er einmitt ekki í neinu samræmi við það sem þekkist í nágrannaríkjunum, stúdentum sem kjósa að vinna með námi og vinna jafnvel fulla vinnu með námi. Auðvitað bitnar það á framvindu í námi og möguleikum á að klára námið þegar fólk er í svona mikilli vinnu með námi. Hyggst hæstvirtur ráðherra mæta kröfum stúdenta, sem voru reyndar í 60 tillögum? Þar eru margar mjög góðar tillögur þegar kemur að stuðningi við framfærslu stúdenta,“ sagði Helga Vala.

„Ég hef móttekið kröfur námsmanna, bæði LÍS, SÍNE, Sambands íslenskra námsmanna erlendis, og Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þær eru nýkomnar til mín og verða hafðar til hliðsjónar í þeirri vinnu sem fram fer á þessu ári við að leggja mat á hvaða endurskoðun þarf að gera á nýjum lögum. Kerfinu var gjörbylt hér í sátt á Alþingi sem samþykkti stórar breytingar á Menntasjóði námsmanna. Það er líka spurning hversu miklar breytingar er þörf á að ráðast í núna, hversu mikil reynsla hefur í raun komist á kerfið. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um þær kröfur sem hafa komið fram en þar eru auðvitað ýmsar áskoranir. Grunnframfærslan var m.a. hækkuð mikið í fyrra til allra stúdenta sem bætti hag þeirra verulega frá því sem áður var og var mikil ánægja meðal stúdenta vegna þess. Við þurfum síðan að sjá hvaða skref við tökum næst í þessari heildarendurskoðun en þessi tími er því miður of stuttur til að ræða háskólastigið í heild sinni og stöðu stúdenta,“ sagði ráðherrann Áslaug Arna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: