„Að sama skapi fæli of mikill jöfnuður menntað fólk frá Íslandi.“
„Það eru gjarnan hærri laun í útlöndum fyrir fólk með markaðsvæna menntun. Á Norðurlöndum eru það fjölþjóðleg fyrirtæki sem bjóða bestu starfstækifærin. Slíkt skortir hérlendis að einhverju leyti.“
Þetta stendur í Mogga dagsins og er bein tilvitnun í Ásgeir Jónsson hagfræðing við Háskóla Íslands.
Í sömu fréttaskýringu stendur þetta: „Á hinn bóginn fluttu um 1.130 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu á þessum árum en frá því. Sú staðreynd vekur athygli með hliðsjón af því að síðustu ár hafa verið einhver þau hagfelldustu í sögunni m.t.t. meðaltals kaupmáttar og vinnuframboðs.“
Hér talaði sérfræðingur Hagstofunnar.
Lesum aðeins betur. „Ásgeir bendir á að mikill launajöfnuður á Íslandi valdi því að eftirsóknarvert sé fyrir ófaglærða útlendinga að komast í störf á Íslandi. Síðustu ár hafi einnig orðið til mörg störf í ferðaþjónustu og byggingariðnaði á Íslandi fyrir ófaglært fólk. Að sama skapi fæli of mikill jöfnuður menntað fólk frá Íslandi.“
Hann segir sem sagt að hér ríki of mikill launajöfnuður og hann reki menntað fólk frá landinu. Nú er ekki víst að margir, hvað þá allir, séu honum sammála.
„Rúmlega 6.500 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins í fyrra en fluttu frá landinu. Það er annar mesti aðflutningur erlendra ríkisborgara, umfram brottflutta, í sögunni. Metárið er 2017, þegar um 7.900 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því.
Þetta varð ljóst þegar Hagstofan birti bráðabirgðatölur um búferlaflutninga á fjórða fjórðungi í fyrra. Fluttu þá 2.110 erlendir ríkisborgarar til landsins en 1.200 frá því. Samtímis fluttu um 470 íslenskir ríkisborgarar til og frá landinu og er sá flutningsjöfnuður því hlutlaus.
Fjölgaði landsmönnum milli ára úr 348.450 í 357.050, eða um 8.600.
Sé litið til áranna 2015-18 hafa um 21.360 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því og á sú þróun mikinn þátt í íbúafjölgun
Er aðflutningurinn síðustu ár orðinn umtalsvert meiri en á þensluárunum fyrir efnahagshrunið. Það vaxtarskeið var auðvitað styttra,“ segir í Mogganum.