- Advertisement -

Íslendingar eru ótrúlegir umhverfissóðar

Staðreyndin er, að Vesturlönd eru mjög dugleg við að flytja sóðaskap sinn úr landi.

Marinó G. Njálsson, skrifaði á Facebook:

Stundum bera rökin menn ofurliði, en sjaldgæfara er að eigin rök beri menn slíku ofurliði. Umræðan er um umhverfisvernd og kolefnisfótspor. Rökin eru að Kínverjar séu umhverfissóðarnir, en ekki Evrópubúar og Bandaríkjamenn, vegna þess að mengunin er svo mikil í Kína, en ekki á Vesturlöndum. Einhverra hluta vegna gleymist að ástæðan fyrir mikilli mengun í Kína er að búið er að flytja stóran hluta framleiðslu neysluvarnings til Kína. Og ekki bara neysluvarnings, heldur var frétt um það í dag, að Tesco lætur sigla með þorsk veiddan í Norðursjó til Kína, þar sem hann er unninn og síðan siglt með hann til baka til Bretlands til að selja í verslunum Tesco þar!

Staðreyndin er, að Vesturlönd eru mjög dugleg við að flytja sóðaskap sinn úr landi. Við, Íslendingar, framleiðum t.d. mjög lítið innanlands vegna innanlandsneyslu. Stærsti hluti neysluvarnings er innfluttur og því verður öll mengun tengd framleiðslu hans til utan Íslands. Til gera illt verra, þá endurvinnum við sáralítið. Aftur er sóðaskapurinn fluttur úr landi eða urðaður fyrir komandi kynslóðir að takast á við.

Við förum bara mjög fínt í það og dreifum sóðaskapnum út um allan heim.

Íslendingar eru ótrúlegir umhverfissóðar. Við förum bara mjög fínt í það og dreifum sóðaskapnum út um allan heim. Meira að segja stór hluti þess iðnaðar, sem á sér stað í landinu, hann byggir á umhverfissóðaskap annars staðar í heiminum.

En aftur að rökunum sem hittu þann, sem settu þau fram, heima. Hann segir nefnilega um mikla kolefnislosun stóriðjunnar:

„Sú losun er ekki fyrir Íslendinga.“

Ef losun stóriðju á Íslandi, er ekki fyrir Íslendinga (sem ég er í sjálfu sér ekki ósammála), hvers vegna eru Kínverjar þá umhverfissóðar, þegar losun þeirra er ekki fyrir Kínverja? Hvers vegna skiptir mengun á Íslandi Íslendinga ekki máli, vegna þess að framleiðsla stóriðju er fyrir einhverja aðra, en mengun í Kína er öll þeim að kenna, þó hún sé að mestu fyrir einhverja aðra?

Væri hægt að segja, að skynseminni hafi þarna verið fórnað? A.m.k. var rökhyggjunni fórnað á kostnað tækifæris til að koma höggi á vinstri menn og kommúnista. Málið er að um vindhögg var að ræða. Rökin sem gilda um Ísland, gilda alveg jafnvel um Kína og önnur lönd þangað sem mengandi framleiðsla hefur verið flutt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: