Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp sem, ef það verður að lögum, gert Íslendingum sem búa erlendis, og hafa gert í meira en átta ár, mögulegt að kjósa hér á landi.
„Með frumvarpinu er lagt til að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt. Með því fyrirkomulagi verður horfið frá þeirri framkvæmd sem nú gildir að íslenskur ríkisborgari sem hefur átt lögheimili hér á landi þurfi að sækja sérstaklega um að halda kosningarrétti sínum þegar liðin eru átta ár eða meira frá því að viðkomandi ríkisborgari flutti af landi brott, en ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár. Með því er lagt til að í stað þess þurfi íslenskur ríkisborgari sem hefur flutt til útlanda aðeins að sækja um að viðhalda kosningarrétti sínum einu sinni.“
Þá er lagt til að umsóknarferli vegna umsókna um töku á kjörskrá verði rafrænt en það einfaldar og styttir ferlið og gerir það öruggara. Flutningsmenn telja að verði frumvarpið samþykkt muni það spara kjósanda og Þjóðskrá Íslands þónokkra pappírsvinnu og einfalda umstang í kringum kjörskrá.“